Ingi minn dó 6. júlí 2017. Hann var með Lewy body og veikur frá árinu 1995. Pabbi sá það strax og ég mjög fljótlega. Sama ár leitaði ég til lækna vegna hans og ykkar. Aldrei var viðurkennt að neitt væri að honum, ég brotnaði alltaf meira og meira vegna óviðurkennds sjúkdóms og skapbreytinga hans. Hann var í nokkur ár í MS-setrinu. Árið 2013 var hann í endalausum rannsóknum á Borgarspítalanum. Hann fór i margar sársaukafullar rannsóknir, var orðinn grindhoraður og eins og nálapúði eftir þriggja mánaða dvöl. Þeir sprautuðu hann með sjálflýsandi efni vegna röntgenmyndatöku og var hann brunninn um allan líkamann. Það tók mjög langan tíma að lækna brunann og fann hann alltaf einhver einkenni. Hann hafði ofnæmi fyrir efninu. Þá sagði hann: „Ég vil ekki lifa svona.“

Hann var lamaður, heyrnin og sjónin mjög léleg, en mestar áhyggjur hafði hann af vitsmunum sínum og bað mig að skila því hvort hann gæti fengið að fara til fundarmanna á fundi sem var framundan. Aldrei fékk hann að sitja fundi. Svo var fundur með tólf manns og ég skilaði þessu. Fundarmenn urðu allir sem einn fokreiðir út í mig en hann fór í Mörkina og undi sínum hag þokkalega, braut mörg bein í blóðþrýstingsfalli en svo fór hann upp í 250 þrátt fyrir lyf. Hann var með endalausar ofsjónir, ranghugmyndir og hélt að hann væri allt annars staðar.

Ég bað um mikla sjúkraþjálfun og var hann farinn að ganga upp á 7. hæð og sleppti hjólastólnum í eitt ár. Eg fór vikulega með hann út að borða á Ruby Tuesday og tók alltaf eitt barnabarn með en hann var einstakur afi og dýrkaði barnabörnin sem gráta hann enn þann dag í dag. Barnabörnin setja mynd af honum á matarborðið á hátíðum.

Loks eru það endalokin hryllilegu. Í maí 2008 dóu mamma og mágur minn með tveggja mánaða millibili. Ég vakti yfir mömmu í 3 sólarhringa og að sjá sína nánustu deyja úr þorsta er ólýsanlegt. Á meðan var systir mín á líknardeildinni hjá manninum sínum. Svo fer Ingi í líknarmeðferð og hann var svo kvalinn að það mátti ekki snerta hann. Ég lagði höndina lauflétt á bringu hans. Hann veinaði og sagðu „EKKI MEIÐA MIG“! Þetta voru hans lokaorð.

Það tók nákvæmlega jafnlangan tima að deyða hann eins og mömmu, 3 hræðilega sólarhringa. Ég bað um meira morfín en það mátti alls ekki. Daginn eftir að hann dó, þann 7/7, átti ég 67 ára afmæli og varð löggilt gamalmenni.

Í útför hans voru ekki sálmar og söng Gissur Gissurarson aríur eftir Puccini og Verdi og Ave Maria Schuberts að ósk yngri sonar míns. Ég bauð rúmlega 25 manns sem líkaði vel tónlistarflutningurinn og það var einhver friður yfir athöfninni. En fólk á alls ekki að þurfa að þjást svona á lokametrunum.

Ég er ekki sár en er ennþá reið!