Ég eignaðist tælenska tengdadóttur og með syni mínum eignaðist hún tvö börn. Hún og sonur minn slitu samvinstum í góðu. Hann var að mestu með umsjón barna þeirra og ég við hlið hans. Ég tengdist tengdadótturinni náið og reyndi alltaf að vera til staðar fyrir hana. Svo greindist hún með krabbamein en vegna læknamistaka uppgotvaðist sjúkdómurinn það seint að ekki var við neitt ráðið. Ég fór með hana í öll læknaviðtöl og meðferðir og var einnig eins og mögulegt var til staðar fyrir barnabörnin. Þegar þannig var orðið ástatt að hún þyrfti stóma eða ellegar deyja, hvatti ég hana til að fá stóma og fékk barnabörnin og soninn í lið með mér. Tengdadóttirin var ung og ég gat ekki við annað ráðið en að ráðleggja henni þannig.

Ég hef síðan verið að velta þessu fyrir mér og er ekki sátt við að hafa tekið þessa ákvörðun sem varð til þess að valda henni áframhaldandi þjáningum en samviska mín og væntumþykja bauð ekki annað. Læknar og annað fagfólk hefði mátt gefa meiri innsýn og hjálpa við þessa ákvörðun. Ættingjar eiga það til að verða þröngsýnir, láta tilfinningarnar ráða og sjá ekki réttu lausnina fyrir. Ferlið var þungbært og ekki í boði að fá dánaraðstoð.

Ég hef einnig horft upp á mömmu hverfa í Alzheimer og vera síðan rúmliggjandi dauðvona vikum saman og við að vaka til skiptis. Það sama var uppi á teningnum með tengdamóður og tengdaföður og nú bíð ég líklega sjálf eftir slíku nema dánaraðstoð verði í boði.