INGRID KUHLMAN

Dánaraðstoð hefur lengi verið umdeilt og tilfinningaþrungið umræðuefni. Eftir að Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, var stofnað fyrir fjórum árum hefur umræðan aukist jafnt og þétt og sífellt fleiri lönd og fylki landa bæst í hóp þeirra sem leyfa dánaraðstoð. Hér fyrir neðan eru nefnd nokkur rök með dánaraðstoð.

Dánaraðstoð felur í sér virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklings
Við hjá Lífsvirðingu teljum að sjálfráða einstaklingur eigi að hafa yfirráð yfir eigin líkama, lífi og dauða. Í sjálfsákvörðunarrétti einstaklings hlýtur að felast réttur til að taka ákvarðanir um það hvenær og hvernig hann kjósi að deyja. Ættum við ekki að hafa eitthvað að segja um eigin dauðdaga?
Í þessu samhengi er vert að vitna í Desmond Tutu biskup og guðfræðing, sem er fylgjandi dánaraðstoð, en hann sagði á 85 ára afmæli sínu: „Ég hef undirbúið andlát mitt og gert það ljóst að ég vil ekki láta halda mér á lífi hvað sem það kostar. Ég vona að komið verði fram við mig af umhyggju og mér leyft að fara á næsta stig ferðalags lífsins án þann hátt sem ég kýs.“

Dánaraðstoð er mannúðlegur valmöguleiki
Læknisfræðinni hefur fleygt áfram síðustu áratugi og á hátæknisjúkrahúsum nútímans er hægt að lengja líf manna umtalsvert með aðstoð lyfja og nútímatækni, þó það geti leitt til þess að auka þjáningar. Því miður er ekki hægt að útrýma allri þjáningu þótt hægt sé að stilla flesta líkamlega verki. Oft þjást einstaklingar ekki síður tilvistarlega og/eða andlega vegna skertra og óásættanlegra lífsgæða. Dánaraðstoð kemur í veg fyrir vansæmd þeirra og er mannúðlegur valmöguleiki fyrir þá sem vilja halda reisn sinni.

Dánaraðstoð styttir sorg og þjáningu ástvina
Dánaraðstoð dregur úr varanlegum neikvæðum áhrifum á upplifun og minningar ástvina. Rannsóknir frá bæði Hollandi og Oregon hafa sýnt að ástvinir krabbameinssjúkra sem fengu dánaraðstoð upplifðu vægari sorgareinkenni og minni áfallastreitu. Það var þeim huggun í harmi að ástvinur þeirra skuli hafa fengið að stjórna ferðinni og deyja á þann hátt sem hann vildi. Þeir töldu mikilvægan þátt í sorgarferlinu að hafa fengið tækifæri til að vera viðstaddir á dánarstund og kveðja ástvin sinn. Sumir töldu að það að hafa geta rætt á opinskáan hátt um dauðann við ástvin hefði auðveldað þeim að horfast í augu við og sættast við yfirvofandi andlát hans. Aðrir nefndu þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að gera upp ágreining eða rifja upp dýrmætar minningar.

Dánaraðstoð fjölgar valkostum við lok lífs
Það er mikilvægt að fjölga valkostum við lok lífs. Lögleiðing dánaraðstoðar ætti ekki að vera íþyngjandi fyrir neinn og lög þar að lútandi myndu ekki hafa nein áhrif á þá sem eru andvígir dánaraðstoð, hvort sem það er af trúarlegum, siðferðilegum eða öðrum ástæðum. Þeir sem eru andvígir dánaraðstoð geta verið það áfram í lýðræðissamfélagi en verða að sætta sig við að öðrum standi þessi valkostur við lok lífs til boða. Ekki er um að ræða ósk lítils minnihlutahóps hérlendis því samkvæmt könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu síðla ársins 2019 voru 77,7% svarenda fremur eða mjög hlynntir dánaraðstoð á meðan aðeins 6,8% voru fremur eða mjög andvígir.

Þess ber að geta að það eru í rauninni ekki margir sem kjósa að fara þessa leið. Í Hollandi voru sem dæmi 4,3% af öllum andlátum vegna dánaraðstoðar árið 2019 og í Belgíu var hlutfallið 2,1% sama ár. Í Sviss, var dánaraðstoð 1,8% af öllum andlátum fólks með skráð lögheimili þarlendis árið 2018. Einstaklingar með lögheimili utan Sviss sem fengu aðstoð við að deyja voru 0.5% af öllum andlátum en það eru samtökin Dignitas og Lifecircle sem veita dánaraðstoð. Til samanburðar var hlutfallið mun lægra í Oregon árið 2019 eða 0,5% en þar tóku lögin um aðstoð við að deyja gildi árið 1997.

Sífellt fleiri heilbrigðisstarfsmenn styðja dánaraðstoð
Undanfarin ár hefur einnig orðið veruleg breyting á skoðun lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna um allan heim. Í nýlegri könnun bresku læknasamtakanna sagðist helmingur lækna styðja dánaraðstoð. Tölur frá Norðurlöndunum segja svipaða sögu. Stuðningur lækna jókst sem dæmi úr 15% árið 2009 í 30% árið 2019 í Noregi og úr 29% árið 2002 í 46% árið 2013 í Finnlandi. Árið 2013 studdu 33% lækna dánaraðstoð í Svíþjóð. Stuðningur hjúkrunarfræðinga í Noregi jókst úr 25% árið 2009 í 40% árið 2019 og Í Finnlandi var hann orðinn 74% árið 2016. Því miður eru kannanir frá Íslandi gamlar en sýna þó aukningu stuðnings lækna við dánaraðstoð eða úr 5% árið 1997 í 18% árið 2010 . Stuðningur hjúkrunarfræðinga fór einnig úr 9% í 20% á sama tímabili. Það er því fagnaðarefni að fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um viðhorfskönnun heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar.

Ætla má að dánaraðstoð sé nú þegar veitt hérlendis
Ástæða er til að ætla að dánaraðstoð sé nú þegar veitt á Íslandi þó að það sé sjaldan viðurkennt. Erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið í löndum þar sem dánaraðstoð er bönnuð, líkt og hér á landi, sýna að læknar grípa stundum til þess ráðs að deyða sjúklinga með of stórum lyfjaskömmtum í því skyni að lina þjáningar þeirra þó þeir viti fullvel að lyfin muni draga sjúklinginn til dauða. Um leið er annarri meðferð sem miðar að því að lengja líf sjúklings oft hætt. Það er spurning hvort ástandið hér heima sé eitthvað öðruvísi.

Dánaraðstoð minnkar líkur á misnotkun
Með því að leyfa dánaraðstoð með skýrum, ströngum skilyrðum er um leið dregið úr líkum á misnotkun. Þegar smíðaður er góður lagarammi og starfsumgjörð um dánaraðstoð er hægt að þróa skýra verkferla sem draga úr líkum á misnotkun og að farið sé á einhvern hátt gegn vilja sjúklings.

Leyfum dánaraðstoð
Dánaraðstoð felur í sér virðingu og umhyggju fyrir manneskjunni, velferð hennar og sjálfræði. Siðmenntað samfélag eins og Ísland ætti að leyfa dánaraðstoð.

Greinin birtist á Kjarnanum 17. ágúst 2021. Greinarhöfundur er formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð.