Rök með og á móti

Hver eru rökin með dánaraðstoð?

 • Virðing fyrir sjálfræði: Sjálfráða einstaklingur á að hafa yfirráð yfir líkama sínum, lífi og dauða. Það telst til mannréttinda að hafa eitthvað að segja um eigin dauðdaga. Við þurfum að virða sjálfsákvörðunarrétt einstaklings.
 • Mannúð: Líf manna er hægt lengja með aðstoð lyfja og tækja, þó það geti leitt til þess að auka þjáningar. Ekki er hægt að útrýma öllum verkjum og það hverfur ekki öll þjáning þótt hægt sé að stilla líkamlega verki. Dánaraðstoð er mannúðlegur valkostur fyrir þá sem kjósa að deyja með reisn.
 • Dánaraðstoð veitt nú þegar: Dánaraðstoð er veitt nú þegar á Íslandi þó það sé sjaldan viðurkennt. Erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið í löndum þar sem dánaraðstoð er bönnuð eins og hér á landi sýna að fjölmargir læknar deyða sjúklinga með of stórum lyfjaskömmtum í því skyni að lina þjáningar þeirra þó þeir viti fullvel að lyfið muni draga viðkomandi sjúkling til dauða. Um leið er annarri meðferð sem miðar að því að lengja líf sjúklings oft hætt. Fátt bendir til þess að ástandið hér heima sé öðruvísi.
 • Draga úr líkum á misnotkun: Í dag er dánaraðstoð framkvæmd, að einhverju óljósu leyti, án lagalegrar heimildar og án skýrra marka. Því er mikilvægt að smíða lagaramma og starfsumgjörð um dánaraðstoðina og þróa skýra verkferla sem draga úr líkum á misnotkun og að farið sé á einhvern hátt gegn vilja sjúklings.
 • Valkostur: Lögleiðing dánaraðstoðar ætti ekki að vera íþyngjandi fyrir neinn. Slík lög myndu ekki hafa nein bein áhrif á þá sem eru, af trúarlegum eða siðferðilegum forsendum, á móti dánaraðstoð. Þetta er aðeins valkostur fyrir þá sem kjósa að fara þessa leið. Mikilvægt er að fjölga valkostum við lok lífs.

Hver eru rökin gegn dánaraðstoð?

 • Gegn grundvallarstarfsreglum lækna: Dánaraðstoð er andstæð siðferðis- og faglegum skyldum lækna. Það er hlutverk lækna að lækna fólk en ekki deyða það, jafnvel þótt það óski þess eins að fá að deyja.
 • Óréttmæt krafa: Enginn getur átt tilkall til þess að annar deyði sig. Sjúklingur getur ekki farið fram á það við lækni að hann aðstoði sig við að binda endi á líf sitt. Slíkan verknað er ekki hægt að leggja á nokkurn mann.
 • Heilagleiki lífs: Það er rangt að taka líf í hvaða skilningi sem er. Lífið er heilagt, alltaf, og undir öllum kringumstæðum.
 • Þrýstingur ættingja: Hætt er við því að alvarlega veikt fólk upplifi sig sem byrði á sínum nánustu. Ef meðferð er t.d. mjög kostnaðarsöm getur það kallað fram vilja til að deyja. Valkosturinn um dánaraðstoð gæti því falið í sér skilaboð og þrýsting um að nýta sér möguleikann.
 • Þrýstingur á sjúkling: Lögleiðing dánaraðstoðar getur haft í för með sér þá kröfu á sjúklinginn að hann þurfi að gera það upp við sig hvort hann vilji lifa, hann þurfi með öðrum orðum að réttlæta tilvist sína.
 • Framfarir í verkjameðferð: Stórstígar framfarir í verkjameðferð á síðustu árum hafa gert fagfólki kleift að stilla kvalir sjúklinga á mun áhrifaríkari hátt en áður. Þetta hefur fækkað þeim tilvikum þar sem dánaraðstoð væri álitinn kostur.
 • Hætta á misnotkun: Ef eftirlitið er ekki nógu gott er hætta á að úrræðið verði misnotað.
 • Smæðin: Smæðin á Íslandi hamlar opinskáum umræðum um dánaraðstoð. Í litlu landi yrði erfitt að vera þekktur sem læknirinn sem deyðir sjúklinga.