Spurningar og svör

Spurning: Getur hver sem er beðið um dánaraðstoð t.d. í Hollandi eða Sviss s.s. án sjúkdómsgreiningar?

Svar: Aðeins læknir má veita dánaraðstoð í Hollandi og er ákvörðunin ávallt byggð á sjúkdómsgreiningu. Langsamlega flestir þeirra sem fengu dánaraðstoð árið 2015 voru krabbameinssjúklingar eða 72,5%, 5,6% fengu dánaraðstoð vegna taugasjúkdóma, 4,2% vegna hjartasjúkdóma og 3,8% vegna lungnasjúkdóma. Hjá Dignitas, sem er ein af fjórum samtökum sem veita dánaraðstoð í Sviss, leitar teymi frá Dignitas ávallt álits lækna áður en ósk sjúklings er samþykkt. Sjúklingur þarf að senda lækninum gögn um þróun sjúkdómsins, hvernig hann hefur verið meðhöndlaður og hver staðan er þegar sótt er um dánaraðstoð.

 

Spurning: Hvað ef sjúklingur er ekki hæfur til að taka ákvörðun eins og t.d. fólk með elliglöp, Alzheimer, heilaskaddaðir, þroskahamlaðir ofl.?

Svar: Skilyrðin í Hollandi eru þau að læknirinn þarf að vera sannfærður um að ósk sjúklingsins sé vel ígrunduð og að sjúklingurinn sé með ráði og rænu. Þar af leiðandi er t.d. aðeins hægt að veita dánaraðstoð á fyrri stigum Alzheimer þegar sjúklingur er enn fær um að taka ákvarðanir.

 

Spurning: Hvað ef fólk skiptir um skoðun?

Svar: Hvenær sem er í ferlinu má breyta fyrri ákvörðunum og hætta við. Einstaklingur sem biður um dánaraðstoð ræðir slíkt við lækninn sinn í fleiru en einu samtali og getur hvenær sem er dregið ósk sína til baka. Aldrei er því um skyndiákvörðun eða stundarbrjálæði að ræða heldur þarf óskin að vera vel ígrunduð.

 

Spurning: Hvað ef aðstandendur styðja ekki ósk sjúklings um dánaraðstoð?

Svar: Læknar leggja áherslu á þátttöku aðstandenda og ræða við þá á einhverjum tímapunkti í ferlinum. Auðvitað er best ef sátt er um dánaraðstoðina, en samkvæmt lögum er ekki nauðsynlegt að hafa samþykki aðstandenda.

 

Spurning: Get ég sem Íslendingur farið til Hollands eða Sviss og fengið dánaraðstoð?

Svar: Í Hollandi stendur dánaraðstoð aðeins þeim til boða sem eru búsettir í Hollandi og hafa byggt upp meðferðarsamband við lækninn sinn. Dignitas og Exit International í Sviss taka einnig á móti þeim sem hafa lögheimili utan Sviss en hin þrjú samtökin sem veita dánaraðstoð í Sviss eru bara fyrir fólk sem hefur lögheimili í Sviss. Vitað er um alla vega einn Íslending sem hefur nýtt sér möguleikann á dánaraðstoð í Sviss í gegnum Dignitas.

 

Spurning: Geta börn (12-18 ára) beðið um dánaraðstoð?

Svar: Í Hollandi þurfa börn á aldrinum 12-15 ára samþykki foreldranna fyrir ósk um dánaraðstoð. Börn á aldrinum 16 og 17 ára þurfa ekki samþykki foreldranna, en þeir verða að vera upplýstir um ósk barns síns.