Það sem fólk sér eftir á hinstu stund

Þegar ævilokin nálgast hafa margir þörf fyrir að líta til baka og velta fyrir sér hvað skiptir raunverulega máli. Tilfinningar sem skjóta upp kollinum á þessum síðustu stundum lífsins eru margar og margvíslegar eins og afneitun, reiði, ótti, eftirsjá, stolt, þakklæti og sátt. Bronnie Ware, ástralskur hjúkrunarfræðingur sem sinnti líknandi meðferð í mörg ár og var með deyjandi fólki síðustu vikurnar í lífi þess, hefur haldið því fram að fólk þroskist mikið við það að horfast í augu við eigin dauðleika. Þegar hún ræddi við fólk um það sem það sæi eftir á dánarbeði tók hún eftir því að það var rauður þráður í svörum þess. Hún segir frá algengustu fimm svörunum í bók sinni The Top Five Secrets of the Dying:

1. „Ég vildi að ég hefði haft kjark til að vera trú(r) sjálfum/sjálfri mér í stað þess að lifa því lífi sem aðrir ætluðust til af mér“
Þegar fólk er meðvitað um að jarðvist þess er að ljúka sjá margir eftir því að hafa ekki látið draumana rætast. Flestir sjá ekki eftir því sem þeir gerðu heldur eftir öllu því sem þeir gerðu ekki en ætluðu alltaf að framkvæma. Það er mjög mikilvægt að láta draumana rætast. Um leið og fólk missir heilsuna er það nefnilega of seint. Góð heilsa færir fólki frelsi sem fáir átta sig á fyrr en þeir tapa því.

2. „Ég vildi að ég hefði ekki unnið svona mikið“
Margir voru með eftirsjá yfir því að hafa tekið vinnuna fram yfir fjölskylduna og varið of litlum tíma með börnunum sínum og maka. Þeir sögðust m.a. hafa misst af æsku barnanna sinna. Ekki margir óskuðu þess á dánarbeði að hafa varið meiri tíma á skrifstofunni.

3. „Ég vildi að ég hefi haft hugrekki til að tjá tilfinningar mínar“
Margir sögðust hafa byrgt inni tilfinningar sínar í þeim tilgangi að halda friðinn og forðast átök. Þeir sættu sig við meðalmennsku í stað þess að blómstra í lífinu og lifa lífinu til fulls. Margir þróuðu jafnvel með sér sjúkdóma sem afleiðing þeirrar biturðar og gremju sem þeir burðuðust með.

4. „Ég vildi að ég hefði ræktað sambandið við vini mína“
Fólk áttar sig oft ekki á þeim verðmætum sem felast í gömlum vinskap fyrr en það er um seinan. Margir höfðu með árunum misst tengsl við góða vini og sáu eftir því að hafa ekki fjárfest tíma og orku í dýrmætri vináttunni. Á endanum er það nefnilega það sem lífið snýst um.

5. „Ég vildi að ég hefði leyft mér að vera hamingjusamari“
Það virðist sem svo að fólk geri sér ekki grein fyrir því fyrr en á hinstu stund að hamingja er val. Margir sögðust hafa verið fastir í viðjum vanans og haft áhyggjur af áliti annarra. Ótti við breytingar fékk þá til að þykjast vera ánægðir á meðan þeir vildu innst inni öðlast meiri hamingju. Þeir gripu þar af leiðandi ekki tækifæri sem buðust til að breyta sínu lífi til betri vegar.