Fullyrðing:
Það er ekki hægt að leggja það á lækni að veita dánaraðstoð þar sem hún samræmist ekki eðli læknastarfsins. Læknirinn, sem hefur það hlutverk að annast líf og heilbrigði fólks, yrði settur í mjög sérkennilegt hlutverk ef hann ætti að taka líf.
Svar:
Á þeim stöðum þar sem dánaraðstoð er leyfð eru læknar ekki skyldugir til að veita dánaraðstoð stríði hún gegn sannfæringu þeirra. Þeir hafa ótvíræðan rétt til að neita. Sjúklingur á ekki rétt á dánaraðstoð; hann á aðeins rétt á að biðja um dánaraðstoð.
Fullyrðing:
Með því að hefja líknarmeðferð snemma og nota rétta verkjameðferð er hægt að draga úr nánast öllum verkjum. Það þarf enginn að óttast að líða þjáningar á dánarbeði. Dánaraðstoð er því óþörf.
Svar:
Það er óskhyggja að halda að líknarmeðferð geti afmáð alla þjáningu. Það hverfur ekki öll þjáning þótt hægt sé að stilla flesta líkamlega verki. Oft er þetta einnig spurning um tilvistarlega eða andlega þjáningu vegna skertra og/eða óásættanlegra lífsgæða. Margir tala í þessu samhengi um að vilja halda reisn sinni.
Fullyrðing:
Ísland er of lítið samfélag. Það væri erfitt að vera þekktur sem læknirinn sem deyðir sjúklinga.
Svar:
Sennilega hafa margir sagt það sama um fóstureyðingar (nú þungunarrof) sem voru leyfðar hér á landi árið 1975.
Fullyrðing:
Það er lítil eftirspurn eftir dánaraðstoð á Íslandi. Læknar hafa fullyrt að á þrjátíu ára ferli sínum í íslensku heilbrigðiskerfi hafi þeir aldrei heyrt af því að skjólstæðingur óski eftir því að heilbrigðisstarfsmaður hjálpi þeim að deyja.
Svar:
Það kemur ekki á óvart að sjúklingar í íslensku heilbrigðiskerfi hafi ekki óskað eftir því að læknir endi líf þeirra enda er slíkt bannað með lögum. Ef þannig ósk hefur komið fram þá hefur henni verið sinnt án þess það sé gert opinbert, enda lögbrot miðað við núverandi lög.
Fullyrðing:
Lögleiðing dánaraðstoðar myndi leiða til þess að fólk þyrfti að réttlæta vilja sinn til að fá að lifa. Allt veikt fólk þyrfti að velta fyrir sér að taka eigið líf.
Svar:
Það á enginn að þurfa að réttlæta það að vilja lifa. Enginn þrýstingur á að vera frá lækni eða aðstandendum um að binda endi á líf sitt enda væri það ósiðlegt og ekki í samræmi við hugsunina um að geta óskað eftir dánaraðstoð að uppfylltum ströngum skilyrðum.
Fullyrðing:
Líknandi meðferð er mun lakari í þeim löndum þar sem dánaraðstoð hefur verið leyfð, eins og t.d. í Hollandi, Belgíu, Ástralíu eða Nýja Sjálandi, og því kjósi margir að enda líf sitt.
Svar:
Í skýrslunni The 2015 Quality of Death Index: Ranking palliative care accross the world kemur fram að Holland, Belgía, Ástralía og Nýja Sjáland standa sig mjög vel í veitingu líknarmeðferðar en Ástralía er í öðru sæti á heimsvísu, Nýja Sjáland í þriðja sæti, Belgía í því fimmta og Holland í því áttunda. Ef bara Evrópulöndin eru skoðuð er Belgía í þriðja sæti og Holland í því fimmta. Sjá hér.
Fullyrðing:
Dánaraðstoð og líknarmeðferð eru andstæður.
Svar:
Þvert á móti eiga dánaraðstoð og líknarmeðferð að fara hönd í hönd. Dánaraðstoð er stundum endapunkturinn á líknandi meðferð.
Fullyrðing:
Læknar eiga ekki að leika Guð almáttugan og ákveða dauðastundina.
Svar:
Læknar vinna við það alla daga að hafa áhrif á dauðastund sjúklinga sinna. Hver sá læknir sem gefur lyf, framkvæmir aðgerð sem lengir líf skjólstæðings síns eða tekur ákvörðun um að hætta meðferð er að leika Guð.
Fullyrðing:
Umræðan um dánaraðstoð hefur aldrei verið hávær hér á landi.
Svar:
Dauðvona einstaklingar og þeir sem eru fangar í eigin líkama eru ekki líklegir til að vera hávær hagsmunahópur. Það er því líklegra að hærra heyrist í þeim sem eru andvígir dánaraðstoð en fylgjandi.
Fullyrðing:
Aðstandendur hafa orðið út undan í umræðunni um dánaraðstoð. Bannvænn sjúkdómur er áfall og ákvörðunin um dánaraðstoð veldur aðstandendum reiði, sársauka og viðbótarþjáningu.
Svar:
Flestir aðstandendur líta á dánaraðstoð sem mikið kærleiksverk enda er um að ræða dýpstu ósk einstaklingsins um að fá að deyja með sæmd, í faðmi fjölskyldunnar. Rannsókn í Hollandi leiddi í ljós að nánustu aðstandendur krabbameinssjúkra sem fengu dánaraðstoð upplifðu minni sorgareinkenni og áfallastreitu. Mikilvægur þáttur í sorgarferlinu var það að geta kvatt ástvininn.
Fullyrðing:
Hætt er við því að alvarlega veikt eða gamalt fólk upplifi sig sem byrði á sínum nánustu og biðji um dánaraðstoð til að létta byrðinni af ættingjunum.
Svar:
Vissulega getur þessi hætta verið til staðar og því er mikil áhersla lögð á það í þjálfun lækna að þeir ræði einslega og ítrekað við sjúklinginn um rök hans fyrir dánaraðstoð til að ganga úr skugga um að óskin sé sjálfviljug og vel ígrunduð og ekki sé um þrýsting af hálfu ættingja að ræða.
Fullyrðing:
Það að leyfa heilbrigðisstarfsfólki að grípa til aðgerða sem gagngert hafa andlát sjúklinga að markmiði myndi grafa undan trausti og bjóða heim misferli.
Svar:
Núverandi kerfi, þar sem dánaraðstoð er framkvæmd án lagalegrar heimildar, er verra en að lögleiða dánaraðstoð og setja henni skýr mörk. Með því að leyfa dánaraðstoð með skýrum, ströngum skilyrðum væri um leið verið að draga úr líkum á misnotkun. Ef smíðaður er góður lagarammi og starfsumgjörð um dánaraðstoð er hægt að þróa skýra verkferla sem draga úr líkum á misnotkun og því að farið sé á einhvern hátt gegn vilja sjúklings.
Fullyrðing:
Krafan um dánaraðstoð er færð fram vegna þess að einstaklingurinn vill má burtu erfiðleika, þjáningu og sorg sem fylgir því að vera manneskja. Þjáningin er hluti af lífinu og með því að upplifa hana höfum við möguleika á að þroskast.
Svar:
Ekki má gera lítið úr óskum þeirra sem upplifa óbærilega þjáningu sem ekki er hægt að linna og ekkert útlit er fyrir bata. Það er ekkert heilagt við þjáningu. Í Hollandi hefur komið í ljós að langflestir sem biðja um þessa aðstoð eða rúm 85% eru sjúklingar sem er langleiddir af ólæknandi sjúkdómum og hafa upplifað það versta sem lífið hefur uppá að bjóða. Dánaraðstoð snýst um það að gefa lífinu tilgang með því að endurheimta mannlega reisn á dánarbeði. Dánaraðstoð kemur í veg fyrir vansæmd einstaklingsins og missi á líkamlegri eða andlegri getu, auk þess að draga úr varanlegum neikvæðum áhrif á upplifun og minningar ættingja og vina.
Fullyrðing:
Hví ættu óskir örfárra að hafa jafn mikil áhrif á alla hina?
Svar:
Fylgjendur dánaraðstoðar leggja einungis til að hún verði mannúðlegur valmöguleiki við lok lífs. Þeir sem eru andvígir dánaraðstoð geta verið það áfram í lýðræðissamfélagi en verða að sætta sig við að öðrum standi þessi valkostur til boða. Ekki er um að ræða óskir lítils minnihlutahóps því samkvæmt könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu 2022 eru 76,2% frekar hlynntir eða hlynntir dánaraðstoð á meðan aðeins 6,6% eru frekar eða mjög andvígir. Skýrsla heilbrigðisráðherra sem birt var 2023 sýndi að 75,6% eru alfarið, mjög eða frekar hlynntir því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi.
Fullyrðing:
Þegar dánaraðstoð verður leyfð verður farið að beita henni á víðtækari forsendum en ætlað var í upphafi. Læknar munu fara offari við beitingu dánaraðstoðar.
Svar:
Reynslan frá Hollandi sýnir að svo er ekki. Vissulega hefur hlutfall þeirra sem fengu dánaraðstoð hækkað síðan lögin tóku gildi 1. apríl 2002 en hlutfall þeirra lækna sem bundu endi á líf sjúklings án samþykkis hans hefur lækkað á móti.
Fullyrðing:
Gamalt fólk í Hollandi er smeykt við að fara á sjúkrahús eða hjúkrunarheimili af ótta við að verða drepið.
Svar:
Tæp 80% þeirra sem fengu dánaraðstoð í Hollandi árið 2022 dóu heima hjá sér, 7,6% inni á líknardeild, 9,5% inni á elliheimili/hjúkrunarheimili og 1,8% inni á spítala. Dánaraðstoð er auk þess aðeins veitt að beiðni sjúklings. Læknir veitir aldrei dánaraðstoð að eigin frumkvæði.