Viðhorf almennings til dánaraðstoðar
Í gegnum árin hafa verið gerðar ýmsar kannanir á viðhorfi almennings og heilbrigðisstarfsmanna til dánaraðstoðar.
2015
Árið 2015 fékk Síðmennt Maskínu til að framkvæma könnun sem sýndi að 74,5% Íslendinga eru hlynntir því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði). 7,1% svara því til að þau séu fremur eða mjög andvíg.
2019
Könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu í nóvember 2019 sýndi að 77,7% Íslendinga eru mjög eða fremur hlynntir dánaraðstoð á meðan aðeins 6,8% svara því til að þeir séu mjög eða fremur andvígir. Spurningin um afstöðu Íslendinga til dánaraðstoðar í könnun Lífsvirðingar er orðuð aðeins öðruvísi en í könnun Siðmenntar frá árinu 2015. Í könnuninni 2019 hljómar hún svo:
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt (dánaraðstoð) ef hann er haldinn sjúkdómi eða ástandi sem hann lifir óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi?
2022
Samkvæmt könnun Maskínu sem var framkvæmd var fyrir Lífsvirðingu haustið 2022 eru 76,2% Íslendinga hlynntir dánaraðstoð á meðan aðeins 6,6% svara því til að þeir séu fremur eða mjög andvígir.
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt (dánaraðstoð) ef hann er haldinn sjúkdómi eða ástandi sem hann lifir óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi?
2023
Á vormánuðum 2023 fól Alþingi heilbrigðisráðherra að láta framkvæma skoðanakönnun um viðhorf heilbrigðisstarfsmanna, sjúklinga og almennings til dánaraðstoðar. Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og voru niðurstöðurnar birtar á vef Alþingis 8. júní 2023. Spurt var um almenna afstöðu þátttakenda til dánaraðstoðar með svohljóðandi spurningu:
Á heildina litið, hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi?
Meirihluti svarenda eða 75,6% segist alfarið, mjög eða frekar hlynntur því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi á meðan aðeins 7,7% segjast frekar, mjög eða alfarið andvíg.
Í meðfylgjandi töflu má sjá stuðning almennings við dánaraðstoð í gegnum árin.
Viðhorf heilbrigðisstarfsmanna til dánaraðstoðar
1995
Árið 1995 töldu aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga líknardráp, nú dánaraðstoð, réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum í könnun sem var send til 184 lækna og 239 hjúkrunarfræðinga af Landspítala og Borgarspítala.
2010
Í könnun sem framkvæmd var árið 2010 töldu 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga líknardráp, nú dánaraðstoð, réttlætanlegt.
2021
Í viðhorfskönnun sem Brynhildur K. Ásgeirsdóttir framkvæmdi árið 2021 sem hluta af BS-ritgerð sinni meðal lækna og hjúkrunarfræðinga á aðgerðar- og meðferðarsviðum Landspítalans kom fram grundvallarbreyting en þá höfðu 54% lækna og 71% hjúkrunarfræðinga jákvætt viðhorf til dánaraðstoðar.
2023
Í könnun heilbrigðisráðherra segist meirihluti lækna eða 56% segist hlynntur (alfarið, mjög eða frekar) dánaraðstoð, 12% svara hvorki né og 32% segjast andvígir (alfarið, frekar eða mjög). Yfirgnæfandi meirihluti hjúkrunarfræðinga eða 86% segist hlynntur (alfarið, mjög eða frekar) dánaraðstoð, 7% svara hvorki né og aðeins 7% segjast andvígir (alfarið, mjög eða frekar). Mikill meirihluti sjúkraliða eða 81% segist hlynntur (alfarið, mjög eða frekar) dánaraðstoð, 12% svara hvorki né og aðeins 7% segjast andvígir (alfarið, mjög eða frekar).
Í meðfylgjandi töflu má sjá stuðning heilbrigðisstarfsfólks við dánaraðstoð í gegnum árin.