fbpx

Rökin með og á móti

Hver eru rökin með dánaraðstoð?

Hér verða reifuð helstu rök með dánaraðstoð með áherslu á hugmyndir um sjálfræði, mannúð, lífsgæði og rétt einstaklingsins til að velja hvernig hvernig endalokunum verður háttað. Horft verður til alþjóðlegrar reynslu, skoðana almennings og heilbrigðisstarfsfólks auk siðferðilegra og lagalegra álitaefna sem tengjast málinu. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig dánaraðstoð getur verið mikilvægur valkostur fyrir þá sem þjást óbærilega og kjósa að flýta hinu óumflýjanlega á eigin forsendum.


Dánaraðstoð felur í sér virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklings
 

Sjálfsákvörðunarréttur er grundvallaratriði í lýðræðislegu samfélagi og felur í sér rétt einstaklinga til að taka ákvarðanir um eigið líf, svo sem hvar þeir búa, hvaða meðferðir þeir þiggja og hvernig þeir kjósa að lifa. Það er rökrétt framhald að einstaklingar hafi einnig rétt til að velja hvernig og hvenær lífinu lýkur, sérstaklega þegar þeir standa frammi fyrir óbærilegum þjáningum sem nútíma læknisfræði nær ekki að linna. Hver og einn upplifir lífsgæði á sinn hátt. Það sem einn telur ásættanlegt getur annar upplifað sem óbærilegt. Sjálfsákvörðunarrétturinn viðurkennir þessa einstaklingsbundnu upplifun og veitir fólki vald til að ákveða hvað telst viðunandi fyrir það sjálft.

Dánaraðstoð er mannúðleg leið að lífslokum  

Tækniframfarir í læknisfræði gera það mögulegt að lengja líf sjúklinga, en þær hafa einnig í för með sér að fólk getur lifað lengur við lífsskilyrði sem það sjálft telur óásættanleg. Þrátt fyrir líknarmeðferð og verkjastillingu er ekki alltaf hægt að lina allar þjáningar, hvort sem þær eru líkamlegar, andlegar eða tilvistarlegar. Sumir sjúklingar upplifa tilvistarangist eða hræðslu við langvarandi niðurlægingu og það eru þættir sem hvorki lyf né félagslegur stuðningur getur bætt úr. Dánaraðstoð veitir þeim mannúðlegan valkost og virðir óskir þeirra um að ljúka lífinu á eigin forsendum.

Dánaraðstoð fjölgar valkostum við lok lífs  

Með lögleiðingu dánaraðstoðar skapast valkostur sem ekki er til staðar í dag fyrir þá sem þjást óbærilega og kjósa að deyja á eigin forsendum. Slík löggjöf ætti ekki að vera íþyngjandi fyrir neinn. Hún myndi ekki hafa áhrif á þá sem eru andvígir dánaraðstoð, hvort sem það er af trúarlegum, siðferðilegum eða öðrum ástæðum. Í lýðræðissamfélagi er það réttur hvers einstaklings að fylgja eigin sannfæringu og þeir sem eru andvígir dánaraðstoð hafa fullan rétt til að vera það áfram. Þeir verða hins vegar að sætta sig við það að aðrir geti tekið aðra afstöðu og nýtt sér þennan valkost. Lögleiðing dánaraðstoðar snýst þannig ekki um að þröngva neinum til ákveðinna ákvarðana heldur um að tryggja frelsi til að velja í samræmi við eigin gildi og aðstæður.

Dánaraðstoð dregur úr ótta við fyrirsjáanlegar óbærilegar þjáningar

Alvarlega veikir upplifa oft kvíða og ótta við óbærilegar þjáningar sem gætu beðið þeirra. Vitneskjan um að dánaraðstoð sé löglegur valkostur veitir þeim tilfinningu fyrir stjórn á eigin aðstæðum. Vissan um að þeir geti valið að forðast óásættanlegar aðstæður þar sem líkamlegar og andlegar þjáningar gætu orðið yfirþyrmandi, dregur úr vanlíðan og veitir hugarró. Þessari tilfinningu var gerð góð skil í umfjöllun Kveiks í september 2024 þar sem fram kom að viðmælandi upplifði valdeflingu að vita af þessum möguleika þótt ekki kæmi til þess að hann hafi verið nýttur. Þessi ró gerir einstaklingum einnig kleift að einbeita sér að því að lifa lífinu eins vel og unnt er á meðan lífsgæðin eru viðunandi. Þeir geta notað þann tíma til að njóta samvista við ástvini og skapa minningar án stöðugs ótta við hvað framtíðin kunni að bera í skauti sér. Dánaraðstoð snýst þannig ekki aðeins um valkosti við lok lífs heldur einnig um að bæta lífsgæði á lokaskeiði þess.

Dánaraðstoð getur dregið úr sorg og áfallastreitu ástvina  

Rannsóknir frá Hollandi og Oregonfylki í Bandaríkjunum sýna að ástvinir krabbameinssjúkra sem fengu dánaraðstoð upplifðu vægari sorgareinkenni og minni áfallastreitu en þeir sem ekki höfðu slíkan valkost. Það veitti þeim huggun að vita að ástvinur þeirra fékk að kveðja lífið á sínum eigin forsendum. Þeir töldu mikilvægan þátt í sorgarferlinu að hafa fengið tækifæri til að vera viðstaddir á dánarstund og kveðja ástvin sinn. Sumir nefndu að opinskáar umræður um dauðann hefðu auðveldað þeim að sættast við yfirvofandi andlát og takast á við missinn. Aðrir nefndu þakklæti fyrir tækifærið til að sættast, rifja upp dýrmætar minningar og njóta síðustu samverustunda.

Dánaraðstoð eyðir lagalegri óvissu og gerir ferlið faglegt

Rannsóknir frá löndum þar sem dánaraðstoð er óheimil sýna að læknar grípa stundum til þess að gefa sjúklingum of stóra skammta af verkjalyfjum til að flýta fyrir andlátinu.  Reynslusögur sem berast Lífsvirðingu gefa til kynna að slíkt kunni einnig að eiga sér stað hér á landi. Þegar dánaraðstoð var lögleidd í Hollandi árið 2002 fögnuðu læknar þeirri lagabreytingu, þar sem hún eyddi öllum gráum svæðum, gerði ferlið faglegra og tryggði skýra framkvæmd sem hafin er yfir allan vafa.

Lög um dánaraðstoð minnka líkur á misnotkun  

Með því að lögleiða dánaraðstoð undir skýrum ströngum skilyrðum og með góðu eftirliti má draga úr líkum á misnotkun. Með góðum lagaramma og vel útfærðri starfsumgjörð er hægt að þróa skýra og gagnsæja verkferla sem tryggja að ferlið sé réttlátt og fari fram í fullu samræmi við vilja sjúklingsins. Þetta eykur traust almennings á kerfinu, ver heilbrigðisstarfsfólk fyrir óvissu og siðferðilegum álitamálum, og kemur í veg fyrir óformlegar aðgerðir sem gætu annars leitt til misnotkunar eða vafasamra aðstæðna. Líkt og Lífsvirðing hefur margoft bent á, verður engum heilbrigðisstarfsmanni gert skylt að taka þátt í dánaraðstoð stríði það gegn sannfæringu viðkomandi.

Dánaraðstoð stuðlar að opinskárri umræðu um dauðann

Í mörgum menningarheimum er dauðinn enn tabú og fólk forðast oft að ræða hann. Þessi þögn leiðir til skorts á undirbúningi og takmarkaðs skilnings á því sem gerist við lok lífsins. Lögleiðing dánaraðstoðar getur orðið hvati að því að normalísera umræðu um dauðann sem órjúfanlegan hluta af lífinu. Með lögfestingu dánaraðstoðar skapast tækifæri til opinna samskipta milli einstaklinga, fjölskyldna og heilbrigðisstarfsfólks. Það stuðlar að meiri meðvitund um valkosti, væntingar og ákvarðanir sem varða lok lífsins. Umræða um dánaraðstoð opnar einnig á dýpri samtöl um lífsgæði, mannlega reisn og hvað það þýðir að lifa og deyja á eigin forsendum.

Dánaraðstoð getur eflt samband læknis og sjúklings

Reynsla sjúklinga sem hafa möguleika á dánaraðstoð er að þeir upplifa að læknar þeirra virði óskir þeirra um hvernig og hvenær lífi þeirra eigi að ljúka. Þetta eflir tilfinningu sjúklingsins fyrir sjálfræði og eykur traust til heilbrigðisstarfsfólks. Sjúklingarnir finna að þeir hafa vald yfir eigin ákvörðunum og að læknarnir séu til staðar til að styðja þá, frekar en að taka ákvarðanir fyrir þá. Lögleiðing dánaraðstoðar krefst þess að læknar og sjúklingar ræði saman á opinskáan og einlægan hátt um lífsgæði, þjáningar, óskir og væntingar í tengslum við lok lífsins. Slíkar samræður stuðla að dýpri skilningi og trausti á milli sjúklings og læknis.

Lögleiðing dánaraðstoðar getur dregið úr sjálfsvígum

Í samfélögum þar sem dánaraðstoð er ólögleg eru dæmi um að einstaklingar með ólæknandi sjúkdóma taki eigið líf vegna ótta við að missa getu til að hafa stjórn á eigin lífslokum. Þetta þýðir að þeir glata dýrmætum tíma með fjölskyldu og vinum á lokaskeiði lífsins. Sjálfsvíg getur leitt til áfallastreitu og sektarkenndar fyrir fjölskyldur og ástvini, auk þess að skilja þau eftir með ósvaraðar spurningar. Með lögleiðingu dánaraðstoðar má veita þeim sem glíma við óbærilegar þjáningar öruggt og mannúðlegt úrræði.

Vaxandi stuðningur heilbrigðisstarfsmanna við dánaraðstoð á Íslandi 

Stuðningur við dánaraðstoð hefur aukist meðal heilbrigðisstarfsmanna undanfarin ár, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Þetta endurspeglar breytt viðhorf til mannúðar, lífsgæða og réttinda sjúklinga við lok lífs. Samkvæmt könnun sem heilbrigðisráðherra lét framkvæma og var birt í júní 2023, lýstu 56% lækna, 86% hjúkrunarfræðinga og 81% sjúkraliða yfir stuðningi við lögleiðingu dánaraðstoðar á Íslandi. Þessar niðurstöður undirstrika vaxandi meðvitund meðal heilbrigðisstarfsfólks um mikilvægi þess að veita fólki mannúðlegan valkost við lok lífsins auk þess að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga.

Mikill meirihluti íslensks almennings styður lögleiðingu dánaraðstoðar

Kannanir sýna stöðugan og afgerandi stuðning við dánaraðstoð meðal íslensks almennings. Samkvæmt könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu síðla árs 2022 voru 76,2% svarenda fremur eða mjög hlynntir dánaraðstoð, á meðan aðeins 6,6% voru fremur eða mjög andvígir. Í könnun heilbrigðisráðherra sem birt var í júní 2023 kom fram að 75,6% svarenda voru alfarið, mjög eða frekar hlynntir lögleiðingu dánaraðstoðar á Íslandi. Þessi mikli stuðningur endurspeglar vilja almennings til að sjá breytingar á lögum sem mæta þörfum þeirra sem vilja ljúka lífi sínu á eigin forsendum.

Fjölbreytt alþjóðleg reynsla staðfestir jákvæð áhrif dánaraðstoðar

Í löndum þar sem dánaraðstoð hefur verið lögleidd, líkt og Hollandi, Belgíu, Kanada og nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, sýnir reynslan að ferlið er faglegt, undir góðu eftirliti og byggt á virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti sjúklinga. Rannsóknir benda til þess að einungis lítill hluti sjúklinga kjósi dánaraðstoð, og þeir sem gera það taka ákvörðunina eftir vandað mat og ítarlegar samræður við lækna og ástvini. Þetta dregur fram mikilvægi þess að ferlið sé gagnsætt og byggiá vel skilgreindum reglum og siðferðilegum ramma. Auk þess hefur lögleiðing dánaraðstoðar stuðlað að opnari umræðu um dauðann og lok lífsins, bættri líknarmeðferð og auknum stuðningi við sjúklinga og fjölskyldur þeirra.

Hver eru rökin gegn dánaraðstoð?

Umræðan um dánaraðstoð vekur upp margvíslegar siðferðilegar, félagslegar og faglegar spurningar. Þeir sem hafa sett sig gegn lögleiðingu dánaraðstoðar hafa bent á hugsanleg áhrif á viðkvæmustu hópa samfélagsins og afleiðingar fyrir hlutverk og fagmennsku heilbrigðisstarfsmanna. Þá hefur einnig verið bent á hættuna á misnotkun og samfélagslegan þrýsting á einstaklinga sem glíma við langvinna sjúkdóma, fötlun eða aðra erfiðleika. Meðfylgjandi eru reifuð nokkur af helstu rökum sem hafa verið sett fram gegn dánaraðstoð.


Dánaraðstoð er óþörf

Lög um réttindi sjúklinga á Íslandi veita einstaklingum rétt til að hafna eða hætta læknismeðferð eða gefa til kynna að þeir óski ekki eftir tilraunum til endurlífgunar eða meðferð sem lengir líf þeirra, jafnvel þótt slíkar ákvarðanir leiði óhjákvæmilega til andláts þeirra. Með þessu móti hafa einstaklingar ákveðið vald til að stjórna eigin lífslokum án þess að það krefjist íhlutunar af hálfu annars aðila, svo sem læknis sem framkvæmir dánaraðstoð.

Auk þess hafa stórstígar framfarir í líknarmeðferð á síðustu árum gert það að verkum að hægt er að stilla kvalir á mun áhrifaríkari hátt en áður. Með góðri líknarmeðferð er hægt að draga úr alvarlegum einkennum og fækka þeim tilvikum þar sem dánaraðstoð væri álitinn kostur.

Dánaraðstoð stríðir gegn grundvallarstarfsreglum lækna

Í grunninn er dánaraðstoð andstæð siðferðislegum og faglegum skyldum lækna. Hlutverk þeirra er að lækna, líkna og bæta lífsgæði sjúklinga, en ekki að framkalla andlát þeirra vísvitandi, jafnvel þótt sjúklingur óski þess sjálfur.

Læknar vinna eftir siðareglum sem leggja áherslu á að vernda líf og lágmarka skaða. Í Hippókratesareiðnum, sem er grunnur að siðareglum heilbrigðisstarfsmanna, er tekið fram að læknar skuldbindi sig til að „valda ekki dauða, jafnvel þótt þess sé óskað.“ Alþjóðasamtök lækna (WMA) og fjölmörg önnur læknasamtök hafa lýst yfir andstöðu sinni við dánaraðstoð þar sem hún brýtur í bága við þessi grundvallargildi.

Dánaraðstoð er óréttmæt krafa sem veldur siðferðislegri togstreitu hjá læknum

Enginn ætti að vera settur í þá stöðu að þurfa að taka á sig ábyrgð á því að binda enda á líf annars manns. Slíkan verknað er ekki hægt að leggja á nokkurn mann án þess að það valdi siðferðislegum og tilfinningalegum afleiðingum fyrir þann sem framkvæmir verkið. Að veita dánaraðstoð gæti valdið sektarkennd, vanlíðan og vangaveltum hjá læknum um réttmæti ákvörðunarinnar, sérstaklega ef einhver vafi er á hvort sjúklingurinn hafi skipt um skoðun eða ekki skilið alla valkosti.

Dánaraðstoð getur skaðað samband heilbrigðisstarfsmanna og sjúklings

Samband sjúklings og heilbrigðisstarfsmanna byggir á trausti. Sjúklingar treysta því að læknirinn eða hjúkrunarfræðingurinn hafi þeirra bestu hagsmuni í huga og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að lækna og líkna. Að leyfa dánaraðstoð getur ógnað þessu trausti. Ef sjúklingar upplifa að heilbrigðisstarfsfólk hafi einnig vald til að binda enda á líf þeirra, gætu þeir fundið fyrir óöryggi eða kvíða um það hvort allir möguleikar hafi verið nýttir til að lina þjáningar þeirra eða bæta lífsgæði.

Aðstandendur gætu líka upplifað vantraust, sérstaklega ef þeir telja að ekki hafi verið gengið nægilega vel úr skugga um vilja sjúklings. Slík óvissa getur haft djúpstæð áhrif á sambandið milli sjúklings, aðstandenda og heilbrigðisstarfsfólks.

Heilagleiki lífs

Mannlegt líf er einstakt, dýrmætt og heilagt. Í mörgum trúarbrögðum er það talið gjöf frá Guði, og þar með í höndum hans eins að ákveða hvenær lífi lýkur. Hugmyndin um heilagleika lífsins leggur áherslu á að lífið hafi gildi óháð aðstæðum, lífsgæðum eða þjáningu.

Þjáningin er hluti af lífinu

Líkamleg og andleg þjáning eru óhjákvæmilegur hluti mannlegrar tilveru sem geta haft tilgang eða gildi. Þjáning getur kennt fólki að takast á við erfiðleika, dýpkað tengsl við annað fólk og veitt nýjan skilning á því hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Með því að veita dánaraðstoð væri mögulega verið að taka frá einstaklingum þann möguleika að upplifa það jákvæða sem þjáningin gæti haft í för með sér.

Fólk gæti litið á dánaraðstoð sem leið til að draga úr kostnaði

Hætt er við því að alvarlega veikt fólk upplifi sig sem byrði á samfélaginu eða sínum nánustu, jafnvel þótt slíkt sé aldrei sagt berum orðum. Þegar kostnaður við meðferð eða umönnun er mikill gæti fólk talið það siðferðislega rétt að velja dánaraðstoð til að létta á öðrum. Að hafa dánaraðstoð sem valkost gæti því falið í sér skilaboð og þrýsting um að nýta sér þennan möguleika.

Þrýstingur á viðkvæma hópa

Lögleiðing dánaraðstoðar getur óbeint skapað þrýsting á viðkvæma hópa samfélagsins, svo sem aldraða, fólk með fötlun, veikt fólk sem þarfnast stöðugrar umönnunar eða einmana einstaklinga, um að þeir geri það upp við sig hvort þeir vilji lifa. Þeir gætu með öðrum orðum þurft að réttlæta tilvist sína með því að sanna að líf þeirra sé „virði þess að lifa“. Dánaraðstoð væri þá ekki lengur frjálst val heldur ákvörðun mótuð af félagslegum eða fjárhagslegum aðstæðum.

Hætta á útvíkkun skilyrða

Í umræðum um dánaraðstoð er algengt að vísað sé til þess sem á ensku er kallað „slippery slope“ eða „hálkubrautarrök“. Þessi rök fela í sér áhyggjur af því að þegar ákveðin siðferðileg eða lagaleg mörk eru færð eða breytt, gæti það leitt til frekari breytinga sem eru óæskilegar eða siðferðilega óásættanlegar. Til dæmis er haldið fram að ef dánaraðstoð yrði leyfð fyrir takmarkaðan hóp, til dæmis einstaklinga með ólæknandi sjúkdóma sem eru á lokastigi lífsins, gætu skilyrðin smám saman verið útvíkkuð til að ná yfir aðra hópa, svo sem einstaklinga með alvarlega andlega sjúkdóma, börn, fólk með heilabilun eða einstaklinga sem eru saddir lífdaga.

Smæðin á Íslandi er hamlandi

Íslenskt samfélag, með sínum nánu tengslum og smæð, býður upp á sérstakar áskoranir í tengslum við dánaraðstoð. Smæðin gæti leitt til þess að fólk verði tregt til að ræða eða styðja dánaraðstoð opinberlega. Í litlu samfélagi gæti verið erfitt að vera þekktur sem læknirinn sem tekur að sér að veita dánaraðstoð. Ættingjar eða vinir gætu átt erfitt með að sætta sig við að læknir sem þeir þekkja persónulega taki þátt í dánaraðstoð, jafnvel þótt hún sé lögleg og byggð á skýrum reglum. Smæðin gæti einnig gert eftirlit erfiðara, þar sem hagsmunatengsl eru algengari í litlum samfélögum, og skapað áskoranir við að tryggja hlutlægni.

Dánaraðstoð er óafturkræf ákvörðun

Þegar dánaraðstoð er veitt er það óafturkræf ákvörðun sem gerir hana einstaka í eðli sínu og kallar á að vilji sjúklingsins sé metinn vandlega til að tryggja að ákvörðunin sé skýr, upplýst og óhrekjanleg. Sjúklingar gætu verið undir tímabundnu álagi, verið þunglyndir eða upplifað verki sem væri hægt að meðhöndla á annan hátt. Þeir tækju hugsanlega ákvörðun um dánaraðstoð á tímabili þegar tilfinningar þeirra eru sterkastar.