Hver eru rökin með dánaraðstoð?
Sjálfráða einstaklingur á að hafa yfirráð yfir líkama sínum, lífi og dauða. Í sjálfsákvörðunarrétti einstaklings hlýtur að felast réttur til að taka ákvarðanir um það hvenær og hvernig hann kjósi að deyja. Ættum við ekki að hafa eitthvað að segja um eigin dauðdaga?
Dánaraðstoð er mannúðlegur valmöguleikiLæknisfræðinni hefur fleygt áfram síðustu áratugi og á hátæknisjúkrahúsum er hægt að lengja líf okkar umtalsvert með aðstoð lyfja og nútímatækni, þó að það geti leitt til þess að auka þjáningar. Því miður er ekki hægt að útrýma allri þjáningu þótt hægt sé að stilla flesta líkamlega verki. Oft þjást einstaklingar ekki síður tilvistarlega og/eða andlega vegna skertra eða óásættanlegra lífsgæða. Dánaraðstoð kemur í veg fyrir vansæmd þeirra og er mannúðlegur valmöguleiki fyrir þá.
Dánaraðstoð styttir sorg og þjáningu ástvinaDánaraðstoð dregur úr varanlegum neikvæðum áhrifum á upplifun og minningar ástvina. Rannsóknir frá bæði Hollandi og Oregon hafa sýnt að ástvinir krabbameinssjúkra sem fengu dánaraðstoð upplifðu vægari sorgareinkenni og minni áfallastreitu en þeir sem höfðu ekki möguleika á dánaraðstoð. Það var þeim huggun í harmi að ástvinur þeirra skuli fá að stjórna ferðinni og deyja á þann hátt sem hann vildi. Þeir töldu mikilvægan þátt í sorgarferlinu að hafa fengið tækifæri til að vera viðstaddir á dánarstund og kveðja ástvin sinn. Sumir töldu að það að hafa geta rætt á opinskáan hátt um dauðann við ástvin hefði auðveldað þeim að horfast í augu við og sættast við yfirvofandi andlát hans. Aðrir nefndu þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að gera upp ágreining eða rifja upp dýrmætar minningar.
Dánaraðstoð fjölgar valkostum við lok lífsÞað er mikilvægt að fjölga valkostum við lok lífs. Lögleiðing dánaraðstoðar ætti ekki að vera íþyngjandi fyrir neinn og lög þar að lútandi myndu ekki hafa nein áhrif á þá sem eru andvígir dánaraðstoð, hvort sem það er af trúarlegum, siðferðilegum eða öðrum ástæðum. Þeir sem eru andvígir dánaraðstoð geta verið það áfram í lýðræðissamfélagi en verða að sætta sig við að öðrum standi þessi valkostur við lok lífs til boða.
Ætla má að dánaraðstoð sé nú þegar veitt hérlendisÁstæða er til að ætla að dánaraðstoð sé nú þegar veitt á Íslandi þó að það sé sjaldan viðurkennt. Erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið í löndum þar sem dánaraðstoð er bönnuð, líkt og hér á landi, sýna að læknar grípa stundum til þess ráðs að deyða sjúklinga með of stórum lyfjaskömmtum í því skyni að lina þjáningar þeirra þó að þeir viti fullvel að lyfin muni draga sjúklinginn til dauða. Um leið er annarri meðferð sem miðar að því að lengja líf hans oft hætt. Það er spurning hvort ástandið hér heima sé eitthvað öðruvísi.
Dánaraðstoð minnkar líkur á misnotkunMeð því að leyfa dánaraðstoð með skýrum, ströngum skilyrðum og undir góðu eftirliti er um leið dregið úr líkum á misnotkun. Þegar smíðaður er góður lagarammi og starfsumgjörð um dánaraðstoð er hægt að þróa skýra verkferla sem draga úr líkum á misnotkun og því að farið sé á einhvern hátt gegn vilja sjúklings.
Sífellt fleiri heilbrigðisstarfsmenn styðja dánaraðstoðUndanfarin ár hefur orðið veruleg breyting á viðhorfi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Í nýlegri könnun heilbrigðisráðherra sem birt var í júní 2023 kemur fram að 56% lækna, 86% hjúkrunarfræðinga og 81% sjúkraliða eru alfarið, mjög eða frekar hlynntir því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi.
Almenningur vill sjá löggjöf um dánaraðstoðSamkvæmt könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu síðla árs 2022 voru 76,2% svarenda fremur eða mjög hlynntir dánaraðstoð á meðan aðeins 6,6% voru fremur eða mjög andvígir. Í könnun heilbrigðisráðherra sem birt var í júní 2023 kemur fram að 75,6% eru alfarið, mjög eða frekar hlynntir því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi.
Hver eru rökin gegn dánaraðstoð?
Lög um réttindi sjúklinga kveða á um að sérhver sjúklingur eigi rétt á að hafna eða hætta læknismeðferð eða gefa til kynna að hann óski ekki eftir tilraunum til endurlífgunar eða meðferð sem lengir líf hans. Það ætti að nægja.
Dánaraðstoð er óréttmæt krafaEnginn getur átt tilkall til þess að annar deyði sig. Sjúklingur getur ekki farið fram á það við annan einstakling að fá aðstoð við að binda endi á eigið líf. Slíkan verknað er ekki hægt að leggja á nokkurn mann.
Heilagleiki lífsMannlegt líf er heilagt vegna þess að það er gjöf frá Guði. Því er rangt að taka líf í hvaða skilningi sem er. Lífið er heilagt, alltaf, og undir öllum kringumstæðum. Læknir á ekki að leika Guð. Aðeins Guð ætti að fá að ráða hvenær mannslífi ljúki.
Dánaraðstoð stríðir gegn grundvallarstarfsreglum læknaDánaraðstoð er í grundvallaratriðum andstæð siðferðislegum og faglegum skyldum lækna. Það er hlutverk lækna að lækna sjúklinga eða bæta heilsu þeirra en ekki valda andláti þeirra vísvitandi, jafnvel þótt þeir óski þess eins að fá að deyja. Læknar eiga frekar að virða og varðveita líf en að taka líf.
Dánaraðstoð getur skaðað samband heilbrigðisstarfsmanna og sjúklingsAð leyfa dánaraðstoð getur ógnað eða grafið undan trausti sjúklinga og aðstandenda á fyrirætlunum heilbrigðisstarfsmanna. Sjúklingar verða að geta heilbrigðisstarfsmönnum til að hjálpa þeim að læknast eftir bestu getu. Traust er mikilvægur þáttur í lækningu.
Fólk gæti litið á dánaraðstoð sem leið til að draga úr kostnaðiHætt er við því að alvarlega veikt fólk upplifi sig sem byrði á samfélaginu eða sínum nánustu. Ef meðferð er t.d. mjög kostnaðarsöm getur það kallað fram vilja til að deyja. Að hafa dánaraðstoð sem valkost gæti því falið í sér skilaboð og þrýsting um að nýta sér þennan möguleika.
Þrýstingur á viðkvæma einstaklingaLögleiðing dánaraðstoðar getur haft í för með sér kröfu á viðkvæma einstaklinga eins og t.d. aldraða, fólk með fötlun, veikt fólk sem þarfnast stöðugrar umönnunar eða einmana einstaklinga um að þeir geri það upp við sig hvort þeir vilji lifa. Þeir þurfi með öðrum orðum að réttlæta tilvist sína.
Framfarir í verkja- og líknarmeðferðStórstígar framfarir í verkja- og líknarmeðferð á síðustu árum gera fagfólki kleift að stilla kvalir sjúklinga á mun áhrifaríkari hátt en áður. Góð líknarmeðferð dregur úr erfiðum einkennum og fækkar þeim tilvikum þar sem dánaraðstoð væri álitinn kostur.
Hætta á misnotkunEf eftirlitið er ekki nógu gott er hætta á að úrræðið verði misnotað eða beitt á víðtækari forsendum en ætlað var í upphafi. Þá yrði dánaraðstoð veitt, án samþykkis, einstaklingum með geðsjúkdóma, líkamlega fötlun, öldruðum, fólki með heilabilun, heimilislausum og öðrum sem eru ekki nálægt dauðanum.
Smæðin á ÍslandiSmæðin á Íslandi hamlar opinskárri umræðu um dánaraðstoð. Í litlu samfélagi yrði erfitt að vera þekktur sem læknirinn sem tekur að sér að deyða sjúklinga.