fbpx

Spurningar og svör

Getur hver sem er beðið um dánaraðstoð, t.d. í Hollandi, Belgíu eða Sviss, án sjúkdómsgreiningar?

Aðeins læknar mega veita dánaraðstoð í Hollandi og er ákvörðunin ávallt byggð á ítarlegri sjúkdómsgreiningu. Flestir þeirra sem fengu dánaraðstoð í Hollandi árið 2022 voru krabbameinssjúklingar eða tæp 58%. Síðan komu aðrir langvinnir sjúkdómar s.s. hjarta- og æðasjúkdómar, lungnasjúkdómar, taugasjúkdómar o.fl. (33,1%), aldurstengdir fjölsjúkdómar (4,3%), heilabilun (3,3%) og geðsjúkdómar (1,3%). 

Í Belgíu voru helstu ástæður fyrir dánaraðstoð æxli/krabbamein (59,9%), sambland af mismunandi langvinnum og ólæknandi sjúkdómum (19,6%) og sjúkdómar í taugakerfinu (8,9%). 

Hjá Dignitas, sem er ein af fjórum samtökum sem veita dánaraðstoð í Sviss, leitar teymi frá Dignitas ávallt álits lækna áður en beiðni sjúklings um dánaraðstoð er samþykkt. Sjúklingur þarf að senda lækninum gögn um þróun sjúkdómsins, hvernig hann hefur verið meðhöndlaður og hver staðan er þegar sótt er um dánaraðstoð.