1. grein
Nafn félagsins er LÍFSVIRÐING, félag um dánaraðstoð. Félagið starfar á landsvísu. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Tilgangur félagsins er:
- að stuðla að opinni, uppbyggilegri og víðtækri umræðu um dánaraðstoð. Félagið leggur áherslu á að einstaklingur hafi yfirráð yfir líkama sínum, lífi og dauða.
- að vinna að því að samþykkt verði löggjöf um það við vissar, vel skilgreindar aðstæður, og að uppfylltum ströngum skilyrðum, verði dánaraðstoð mannúðlegur valkostur fyrir þá sem kjósa að deyja með reisn. Félagið telur að dánaraðstoð með skýrum skilyrðum teljist til mannréttinda.
- að standa fyrir upplýsingagjöf, fundum og ráðstefnum um dánaraðstoð og vera í góðum tengslum við sambærileg félög erlendis.
3. grein
Félagsmaður getur hver sá orðið sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
a) Styður tilgang félagsins eins og lýst er í 2. grein.
b) Greiðir félagsgjöld við inngöngu í félagið og síðan árlega í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert.
4. grein
Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi ár hvert. Félagsgjald skal vera jafnt fyrir alla sem uppfylla skilyrði félagsaðildar samkvæmt 3. grein. Árgjöld eru innheimt með greiðsluseðli og/eða kröfu í netbanka. Hafi félagi ekki greitt félagsgjöld í tvö ár mun stjórn taka viðkomandi af félagaskrá. Í undantekningartilfellum er hægt að fá félagsgjald niðurfellt.
5. grein
Æðsta stjórn félagsins er í höndum aðalfundar. Aðalfund skal halda einu sinni á ári. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera þannig:
- Skýrsla stjórnar
- Reikningar félagsins
- Ákvörðun félagsgjalds
- Lagabreytingar ef einhverjar eru
- Kosning stjórnarmanna
- Kosning endurskoðenda/skoðunarmenn reikninga
- Önnur mál
6. grein
Aðalfundur félagsins hefur úrslitavald í öllum málefnum félagsins og skal hann haldinn eigi síðar en fyrir maílok ár hvert. Skal hann boðaður með 14 daga fyrirvara.
7. grein
Ákvarðanir aðalfundar teljast löglegar ef þær eru teknar af einföldum meirihluta. Ákvörðun aðalfundar um að leggja félagið niður telst ekki lögleg nema með samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra aðalfundarmanna. Atkvæðisbærir eru þeir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið
8. grein
Almenna félagsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Stjórn boðar félagsfundi eftir því sem tilefni gefast til. Stjórn er skylt að boða félagsfund berist skrifleg krafa um það frá 10 félagsmönnum, þar sem fundarefni skal tilgreint.
Formaður félagsins setur félagsfundi og stýrir þeim, nema hann tilnefni fundarstjóra. Á aðalfundi skal jafnan tilnefndur fundarstjóri, sem skal samþykktur af fundinum. Fundarstjóri skipar fundarritara.
Almennan félagsfund skal stjórn boða með minnst viku fyrirvara með dagskrá á miðlum félagsins eða á annan opinberan hátt.
9. grein
Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn skriflega eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Aðalefni lagabreytingartillagna skal koma fram í fundarboði til aðalfundar. Til að breytingar á lögunum nái fram að ganga þarf samþykki a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða á fundinum.
10. grein
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum og tveimur til vara, kosnir til tveggja ára í senn. Kosning stjórnar skal fara fram á aðalfundi. Formaður skal kosinn sérstaklega. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn.
11. grein
Verði félaginu slitið skulu eignir þess renna til góðgerðarmála sem slitafundur velur.
Lög Lífsvirðingar voru samþykkt á stofnfundi félagsins 26. janúar 2017 en breytingar gerðar á aukaaðalfundi 6. apríl 2017, á aðalfundi 3. júní 2020 og svo á aðalfundi 13. apríl 2021.