Dánaraðstoð er frelsismál

Lífsvirðing, félag sem berst fyrir lögleiðingu dánaraðstoðar á Íslandi, hefur sett frelsi einstaklingsins og sjálfsákvörðunarréttinn í forgrunn baráttu sinnar og að sú ákvörðun sé hluti mannréttinda hvers og eins.

Meðfylgjandi eru helstu rök félagsins fyrir því að dánaraðstoð sé grundvallaratriði í frelsi einstaklingsins.

Einstaklingsfrelsi og sjálfsákvörðunarréttur
Dánaraðstoð snýst í grunninn um rétt einstaklings til að taka ákvarðanir á eigin forsendum um líf sitt og dauða, sér í lagi þegar hann stendur frammi fyrir óbærilegum þjáningum eða ólæknandi sjúkdómi. Rétturinn til að velja hvernig og hvenær við kjósum að ljúka lífi okkar er kjarni einstaklingsfrelsis. Að neyða einstaklinga til að þola óbærilegar þjáningar gegn vilja sínum, sérstaklega þegar engin von er um bata, stríðir gegn hugmyndum um mannlega reisn og sjálfræði.

Takmarkanir ríkisvalds
Að banna dánaraðstoð þýðir í raun að ríkið hafi vald yfir persónulegum ákvörðunum um líf og dauða einstaklinga. Bann við dánaraðstoð viðheldur forræðishyggju sem snýst um að ríkið viti best. Slík nálgun gengur gegn sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga yfir eigin lífi, bæði á meðan á því stendur og hvernig því skuli ljúka. Ríkisvaldið er ekki rétti aðilinn til að ákvarða hvað sé "rétt" eða "rangt" fyrir hvern og einn, heldur eigum við að treysta því að fólk hafi sjálft getu og dómgreind til að ákveða hvað sé því fyrir bestu. Ef fólk hefur rétt til að taka ákvarðanir um eigin lífsstíl, heilsu, meðferðir og aðra grundvallarþætti lífsins, hvers vegna ætti það þá ekki að hafa rétt til að ákveða lok lífs síns?

Virðing fyrir mannlegri reisn
Það að gefa einstaklingum val um að ljúka lífi sínu á eigin forsendum þegar þjáningar verða óbærilegar eða lífsgæði skerðast marktækt er spurning um virðingu og reisn. Dauðinn er eðlilegur hluti af lífinu og lífslokin þurfa ekki að vera líknarslæving til að lina þjáningar á meðan beðið er eftir því að eitthvað gefi sig. Með dánaraðstoð er hægt að viðhalda mannlegri reisn.

Persónuleg ábyrgð
Lífsvirðing leggur áherslu á ábyrgð einstaklingsins á eigin lífi og ákvörðunum. Dánaraðstoð endurspeglar þessa ábyrgð þar sem hún byggir á upplýstri ákvörðun einstaklings. Hluti af þessari ábyrgð er að geta hætt við hvenær sem er, líkt og gildir í þeim löndum þar sem dánaraðstoð hefur verið lögleidd.

Efnahagslegt jafnræði
Í löndum þar sem dánaraðstoð er bönnuð leita sumir til landa eins og Sviss til að nýta sér réttinn til dánaraðstoðar. Þetta skapar ójöfnuð og brýtur gegn jafnræðissjónarmiðum, þar sem aðeins þeir sem hafa efni á slíku ferðalagi hafa raunverulegan aðgang að þessum möguleika. Með lögleiðingu dánaraðstoðar á Íslandi myndu allir þeir sem uppfylla skilyrði lagana hafa jafnt aðgengi, óháð efnahag.

Fordæmi annarra lýðræðisríkja

Á undanförnum árum hafa margar þjóðir gert dánaraðstoð að löglegum valkosti. Þar á meðal eru átta Evrópulönd, ellefu fylki í Bandaríkjunum og sjö lönd í öðrum heimsálfum, sem samanlagt tryggja um 400 milljónum manna aðgang að þessari þjónustu. Lönd eins og Kanada, Holland, og Ástralía, sem öll deila grunngildum um frelsi einstaklingsins og sjálfsákvörðunarrétt, hafa lögleitt dánaraðstoð og sýnt fram á að hægt er að innleiða hana með öruggum og skýrum hætti. Norðurlöndin, þar með talið Ísland, sem telja sig meðal frjálslyndra þjóða, hafa hins vegar ekki fylgt þessum ríkjum í að heimila dánaraðstoð og þar með rétti einstaklingsins að hafa eitthvað að segja til um lífslok sín. Ísland getur fylgt fordæmi þeirra landa sem þegar heimila dánaraðstoðog tryggt bæði frelsi einstaklinga og siðferðilega ábyrga framkvæmd dánaraðstoðar.

Raunveruleg virðing fyrir einstaklingsfrelsi

Dánaraðstoð snýst ekki einungis um mannúð heldur einnig um grundvallarfrelsis. Hún grundvallast á rétti einstaklings til sjálfsákvörðunar og virðingu fyrir reisn hans. Með lögleiðingu dánaraðstoðar á Íslandi yrði sýnt í verki að frelsi einstaklingsins sé virt í raun, rétt eins og þegar lög um þungunarrof voru rýmkuð árið 2019, sem var mikilvægt skref í átt að auknum réttindum og sjálfsákvörðun kvenna.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar 2025.