Hvetjum Læknafélag Íslands til að virða meirihlutasjónarmið lækna um dánaraðstoð

Höfundar þessarar greinar eru meðal stofnenda Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð, sem hóf starfsemi í janúar 2017. Eitt af markmiðum þess er að stuðla að opinni, uppbyggilegri og víðtækri umræðu um dánaraðstoð.

Inntak greinarinnar

Efni þessarar greinar er að beina sjónum að umræðunni um dánaraðstoð hér á landi og þó sérstaklega að því hvort „hagaðilar“ málefnisins taki þátt í henni. En meðal hagaðila eru læknar, sem eiga að vera mikilvægur þátttakandi í umræðunni, en einnig hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar auk ýmissa sjúklingasamtaka og félaga eins og Lífsvirðingar.

Í greininni verður birt afstaða heilbrigðisstétta til dánaraðstoðar og fjallað um þá miklu viðhorfsbreytingu sem hefur átt sér stað á síðustu árum. Einnig ætlum við að ræða afstöðu heilbrigðisstarfsfólks á Norðurlöndum og líta á breytta afstöðu lækna í öðrum löndum.

Umræðan um dánaraðstoð og afstaða lækna

Margoft hefur komið fram nauðsyn þess að heilbrigðisstéttir s.s. læknar, hjúkrunarfólk og sjúkraliðar taki þátt í umræðunni um dánaraðstoð. Vissulega hafa nokkrir læknar skrifað greinar og Læknafélagið skilað umsögnum um þingsályktanir sem snerta dánaraðstoð. Samt sem áður hefur skort á samræður heilbrigðisstétta um málefnið.

Viðhorf Læknafélags Íslands (LÍ) til upplýsingaöflunar og umræðu um dánaraðstoð birtist einna skýrast í umsögn um þingsályktunartillögu 2017-18 en í henni segir m.a.:

„Af framansögðu verður ekki betur séð en að þau frjálsu félagasamtök sem vilja berjast fyrir lagabreytingum á þessu sviði séu fullfær um að sjá sjálf um þá upplýsingaöflun sem tillagan vill fela ráðherra og annast skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til líknardráps. 

LÍ telur óþarfi að fela heilbrigðisráðherra vinnu af þessu tagi meðan löggjöf er með þeim hætti sem fyrir liggur. Heilbrigðisráðherra hefur að mati LÍ fjölmörgum öðrum og brýnni verkum að sinna á sviði heilbrigðismála. LÍ leggst eindregið gegn samþykkt þingsályktunartillögu um dánaraðstoð.“

Í umsögn LÍ um sama mál árið 2021 segir:

„LÍ getur ekki stutt þessa tillögu. Félagið telur umræðu um dánaraðstoð hafa verið einhliða og bjagaða…. 

LÍ leggst því gegn því að skoðanakönnun af þessu tagi verði gerð fyrr en umræðan um dánaraðstoð verður víðtækari og almennari og ekki knúin fram af þeim sem harðast vilja beita sér fyrir lögleiðingu dánaraðstoðar.“

Þess skal getið að átján aðilar sendu inn umsagnir og voru langflestir sammála um nauðsyn þess að afla upplýsinga fyrir utan trúarhreyfingar, LÍ og Landlæknisembættið. Þeir sem vildu málinu framgang voru m.a. Biskupsstofa, Siðmennt, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Öldrunarráð Íslands og MND-félagið.

Eins og nefnt hefur verið hér að framan er eitt af markmiðum Lífsvirðingar að stuðla að aukinni umræðu. Félagið hefur staðið fyrir opnum fundum, málþingum, samræðuvettvangi og fleira og leitað til samtaka lækna um þátttöku og oftast hefur fyrirspurnum hreinlega ekki verið svarað eða þeim hafnað.

Hver er afstaða heilbrigðisstétta til dánaraðstoðar?

Fram til ársins 2021 var aðeins til könnun frá árinu 1995 um afstöðu lækna og hjúkrunarfólks og önnur frá árinu 2010. Árið 2021 birti Berglind K. Ásgeirsdóttir niðurstöðu könnunar í BS ritgerð sinni. Þó að um sé að ræða takmarkað úrtak sýnir könnunin ákveðna þróun sem ekki bara á sér stað hérlendis heldur einnig meðal heilbrigðisstarfsfólks í öðrum löndum. 

Alþingi samþykkti síðastliðið vor skýrslubeiðni frá Bryndísi Haraldsdóttur og tíu öðrum þingmönnum þar sem óskað var eftir könnun heilbrigðisráðherra á viðhorfum lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sjúklingahópa og almennings til dánaraðstoðar. Skýrslan barst Alþingi 8. júní sl. og er um margt áhugaverð.

Niðurstaða könnunar ráðherra styður við þá grundvallarbreytingu á viðhorfi heilbrigðisstétta sem birtist í könnun Berglindar frá árinu 2021. Aðeins 7% hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eru andvígir og 32% lækna. Afstaða heilbrigðisstétta er því mjög skýr. Á fyrstu myndinni eru niðurstöður frá fyrri árum en að auki eru birtar niðurstöður úr skýrslu ráðherra. Í skýrslunni er einnig greint frá afstöðu nokkurra sjúklingasamtaka, Félagi lungnasjúklinga, Heilaheill, Krafti, MS-félagi Íslands og Parkinsonsamtökunum.

Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir afstöðu almennings og endurspeglar niðurstaðan könnun frá 2015, sem var framkvæmd af Maskínu fyrir Siðmennt, auk kannana frá 2019 og 2022 en sama fyrirtæki framkvæmdi þessar kannanir fyrir hönd Lífsvirðingar. 

Afstaða lækna hefur breyst

Það er ekki bara hér á landi sem afstaða lækna hefur breyst. Árið 2019 fór fram könnun um dánaraðstoð meðal lækna í The Royal College of Physicians í Bretlandi sem er með um 40.000 félaga. 43% vildu banna dánaraðstoð (44% 2014) á meðan 31% (24%) vildu heimila hana. Ákveðið var að halda hlutleysi þar til stuðningur næði 60%.

Bresku læknasamtökin (BMA), með 150.000 félaga, ákváðu 2021 að breyta afstöðu sinni úr því að vera mótfallin lögleiðingu dánaraðstoðar í hlutlausa afstöðu. Breytingin var samþykkt eftir að könnun sýndi að 50% félaga BMA studdu dánaraðstoð en 39% voru henni mótfallin.

Í könnun um dánaraðstoð frá mars 2023 meðal skurðlækna í Royal College of Surgeons of England kom fram að 72% töldu að láta ætti af andstöðu félagsins við dánaraðstoð. Í kjölfarið var afstöðu félagsins breytt í hlutlausa. Það sama á við um the Royal College of Nursing. 

Í ritgerð Brynhildar má sjá breytingar á viðhorfi lækna frá nokkrum löndum og eru þær allar á sama veg. Jákvæðni og stuðningur lækna við dánaraðstoð fer vaxandi:

Heimild: „Dánaraðstoð og siðferðileg álitamál meðferðar við lífslok“ – Brynhildur K. Ásgeirsdóttir, 2021.

Hér fyrir neðan er mynd sem sýnir stuðning heilbrigðisstétta á Norðurlöndum til dánaraðstoðar. Niðurstöður frá Íslandi eru frá 2023, Noregi 2019, Svíþjóð 2021 og Finnlandi 2020 (læknar) og 2014 (hjúkrunarfræðingar). Ekki eru til sambærilegar upplýsingar frá Danmörku.

Hvað veldur breyttri afstöðu heilbrigðisstétta?

Í umræðu um niðurstöður könnunar sinnar nefnir Berglind að helstu rök þeirra sem eru fylgjandi dánaraðstoð lúti að sjálfsákvörðunarrétti sjúklings. 58% telja að „deyjandi fólk í tilvistarangist og óbærilegri líðan á að geta valið á milli líknandi meðferðar eða þess að fá að biðja um dánaraðstoð innan ramma öruggs fyrirkomulags.“ 56%  þeirra sem eru hlynntir dánaraðstoð segja að „sjálfræði yfir eigin lífi allt til hins síðasta er eitt mikilvægasta siðferðisverðmæti hverrar persónu. Beiðni um dánaraðstoð er óskin um hjálp við að deyja á sínum forsendum, með reisn og á sinni stundu.“

Heimssamtök dánaraðstoðar (World Federation of Right to Die Societies), sem Lífsvirðing er aðili að, hafa lagt mikla áherslu á sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga þ.e. að þeir einir geti dæmt um kvalir og þjáningar sínar og eigi rétt á að fá dánaraðstoð að uppfylltum ströngum skilyrðum.

Lokaorð 

Stjórn Lífsvirðingar hvetur Læknafélag Íslands til að endurskoða afstöðu sína og lýsa yfir stuðningi við dánaraðstoð eða að minnsta kosti láta af andstöðu sinni og virða það meirihlutasjónarmið lækna sem kemur fram í viðhorfskönnun heilbrigðisráðherra. Með því verður hægt að færa umræðuna á hærra stig.

Greinarhöfundar, Bjarni Jónsson og Ingrid Kuhlman, eru stjórnarmenn í Lífsvirðingu, félagi sem berst fyrir lögleiðingu á réttinum til dánaraðstoðar á Íslandi. Birtist á Heimildinni 13. september 2023.