Dánaraðstoð: Er gjá milli þings og þjóðar?
Samkvæmt nýrri könnun Maskínu, sem var framkvæmd í september sl., eru 76,2% Íslendinga hlynntir dánaraðstoð. Stuðningurinn er svipaður og í könnun Maskínu frá 2019 þegar 77,7% svarenda sögðust hlynntir dánaraðstoð. 6,6% svara því til að þau séu „Mjög andvíg“ eða „Fremur andvíg“, samanborið við 6,9% árið 2019. Þá eru 17,2% sem svara „Í meðallagi“, samanborið við 15,4% árið 2019.
Þegar rýnt er í svörin við spurningunni hvaða stjórnmálaflokk fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Spurningin hljóðar svo:
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt (dánaraðstoð) ef hann er haldinn sjúkdómi eða ástandi sem hann lifir óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi?
Mestur er stuðningurinn meðal kjósenda Viðreisnar eða 90,8% en minnstur hjá kjósendum Miðflokksins eða 66,1%. Stuðningur við dánaraðstoð hefur aukist frá 2019 meðal stuðningsmanna Viðreisnar, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins en minnkað lítillega meðal kjósenda Miðflokksins, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Vegna þess hve úrtakið var lítið fyrir þá sem segist styðja Miðflokkinn og Flokk fólksins skal túlka þær niðurstöður með varúð. Ljóst er þó að mikill meirihluti kjósenda í öllum flokkum styður dánaraðstoð, líkt og sjá má í meðfylgjandi línuriti.
Í ár var bætt við nýrri spurningu sem hljóðar svo:
Myndir þú vilja geta fengið aðstoð læknis hérlendis við að binda enda á líf þitt (dánaraðstoð) ef þú værir haldin(n/ð) sjúkdómi eða ástandi sem þú upplifðir óbærilegt og metið hefði verið ólæknandi eða myndir þú ekki vilja það?
Stuðningur er hjá yfirgnæfandi meirihluta stuðningsmanna allra flokka. Mestur er stuðningurinn meðal kjósenda Flokks fólksins eða 100% og Viðreisnar eða 91,5%. Minnstur er stuðningurinn meðal kjósenda Miðflokksins eða 73,7% og Framsóknarflokksins eða 75,8%. Eins og áður segir skal túlka niðurstöðurnar hvað varðar Miðflokkinn og Flokk fólksins varlega í ljósi þess hve úrtakið var lítið. Ljóst er þó að mikill meirihluti kjósenda í öllum flokkum myndi vilja hafa möguleika á að geta fengið læknisfræðilega aðstoð við að deyja hérlendis, sjá meðfylgjandi línurit.
Þó að þessi afgerandi stuðningur Íslendinga við dánaraðstoð sé ánægjulegur má velta fyrir sér hvenær Alþingi muni taka tillit til afstöðu kjósenda. Vilji þjóðarinnar ætti að endurspeglast á Alþingi þar sem kjörnir fulltrúar hennar sitja. Svo er ekki og það er auðsjáanlega gjá milli þings og þjóðar. Almenningur vill geta haft möguleika á dánaraðstoð en Alþingi, að undanskildum örfáum þingmönnum, hefur ákveðið að ræða málið ekki.
Hvenær ætla Alþingismenn að blanda sér um umræðuna um dánaraðstoð?
Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð. Birtist á kjarninn.is 26. október 2022.