Lífsgæði fram að síðasta andardrætti
Gian Domenico Borasco, sem er prófessor í líknarlækningum við háskólann í Lausanne í Sviss og yfirmaður líknarþjónustu háskólasjúkrahússins, telur að við verðum að sætta okkur við eigin dauðleika og undirbúa andlát okkar löngu áður en við stöndum frammi fyrir því vegna elli, veikinda eða slyss.
Því þó að dauðinn sé eina vissan sem við höfum í lífinu, hegðum við okkur oft eins og við séum ódauðleg.
Þetta snýst allt um lífsgæði
Það sem skiptir mestu máli þegar við nálgumst dauðastundina eru lífsgæði okkar fram að síðasta andardrætti. Bætt lífsgæði eru eitt af meginmarkmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Lífsgæði verða alltaf huglæg og einstaklingsbundin, þau þýða mismunandi hluti fyrir mismunandi einstaklinga. Skilgreining Kenneth Calman læknis er að lífgæði séu munurinn á veruleika einstaklings annars vegar og vonum og væntingum hans hins vegar. Calman segir að lífsgæðin séu ekki góð ef veruleikinn mætir ekki væntingum einstaklingsins. Að sögn Ciaran O. Boyle sálfræðiprófessors á Írlandi eru lífsgæði „það sem sjúklingurinn segir að þau séu.“ Lífsgæði eru ekki aðeins mæld út frá líkamlegu ástandi heldur snúast þau ekki síður um að halda sjálfstæði og geta lifað tilgangsríku og ánægjulegu lífi. Njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Gefa af sér og hjálpa öðrum. Lífsgæði verða þannig að taka tillit til margra þátta lífsins.
Mikilvægt að hlusta, skilja og virða
Líknarmeðferð miðar að því að bæta lífsgæði einstaklinga með lífshættulega sjúkdóma og fjölskyldna þeirra með því að fyrirbyggja og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu. Hlutverk líknandi meðferðar er að sögn Borasco þó ekki aðeins að nýta þekkingu fagfólks til að draga úr þjáningum sjúklings heldur sé einn mikilvægasti þátturinn í hlutverki þess að hlusta, skilja og virða. Borasco segir að ef sjúklingur segir við mann: „Ég þakka þér fyrir líknandi meðferðina, en ég treysti mér ekki til að lifa lengur og myndi vilja fá dánaraðstoð“ verðum við að hlusta, skilja og virða þessa vel ígrunduðu ákvörðun um eigin lífslok. Borasco, sem er sjálfur hlutlaus í afstöðu sinni til dánaraðstoðar, leggur mikla áherslu á að virða ávallt sjálfræði sjúklinga.
Réttur til að ráða eigin lífslokum
Margir eru sömu skoðunar og Borasco og telja að sjúklingur eigi að hafa rétt á að ákveða hvernig hann vilji lifa síðustu dögum lífs síns, og hvenær og hvernig hann endi líf sitt. Dánaraðstoð ætti að vera mannúðlegur valkostur fyrir þá sem kjósa að fara þessa leið. Því miður hafa læknar tilhneigingu til að sýna forræðishyggju þegar þeir ákveða bestu leiðina fyrir einstaklinginn til að deyja. Einstaklingur á ávallt að hafa eitthvað um eigin dauðdaga að segja. Það á sem dæmi ekki að koma í hlut heilbrigðisstarfsmanna og aðstandenda að taka ákvörðun um að hætta næringu og innleiða líknarslævingu (e. palliative sedation) án þess að sjúklingur sé með í ráðum. Margir vilja ekki eyða síðustu dögum lífs síns í móki.
Raunhæft val
Það er mikilvægt að fjölga valkostum við lok lífs. Dánaraðstoð á að vera raunhæft val fyrir þá sem kjósa virðulegan dauða. Hún er val einstaklings sem sér ekki fram á annað nema dauðann. Þeir sem kjósa dánaraðstoð velja ekki milli lífs og dauða heldur milli mismunandi leiða til að deyja. Dánaraðstoð felur í sér virðingu og umhyggju fyrir manneskjunni, velferð hennar og sjálfræði.
Í dag er dánaraðstoð lögleg í 7 Evrópuríki, 11 fylkjum í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Kólumbíu auk þess sem mörg önnur ríki eru að vinna að löggjöf. Vonandi verður dánaraðstoð lögleidd hér á landi í náinni framtíð.
Greinarhöfundur er Sylviane Lecoultre, stjórnarmaður í Lífsvirðingu. Birtist á Kjarninn.is 24. nóvember 2022.