Tölum um dauðann
Segja má að dauðinn sé ákveðið feimnismál í nútímasamfélagi. Við forðumst að ræða hann og þögnin er ekki til góðs. En hverjar ætli séu ástæðurnar fyrir því að við tölum ekki um dauðann? Er það vegna þess að…
…dauðinn er orðinn okkur fjarlægur?
Á árum áður var nándin við dauðinn mun meiri. Fólk lá fyrir dauðanum heima hjá sér þar sem fjölskyldumeðlimir sinntu aðhlynningu og urðu vitni að síðustu andarvörpunum. Eftir andlátið var vakað yfir þeim látna fram að útför og fólk gat komið og kvatt. Í dag deyja flestir eða um 80% á sjúkrastofnunum og útfararþjónustur annast allt ferlið.
…við gerum ráð fyrir að fólk sé of heilbrigt til að deyja?
Kannski líta fjölskyldumeðlimir okkar bara vel út. Eða við höldum að þeir geti ekki dáið þar sem þeir hafa ekki náð mjög háum aldri. Þar með gleymum við því að veikindi, slys og andlát geta barið að dyrum hvenær sem er.
…okkur finnst erfitt að horfast í augu við lífslok?
Við höfum stundum tilhneigingu til að trúa því að ef við hunsum dauðann muni hann einfaldlega hverfa. Ef við tölum ekki um dauðann þá sé hann ekki til.
…við gefum okkur ekki tíma til þess?
Í hvert skipti sem við eigum samtal um lífslok við ástvin, þeim mun auðveldara verður að framfylgja óskum hans þegar að því kemur. Samt byrjum við ekki nógu snemma að skipuleggja endalokin, oft ekki fyrr en þau hvolfast yfir.
…við trúum goðsögnum?
Sumir virðast halda að þegar við ræðum um dauðann og áætlanir um lífslok séum við mun líklegri að deyja um aldur fram. Eða það að tala um dauðann sé bölsýni.
Dauðinn á ekki að vera feimnismál enda er hann órjúfanlegur hluti af lífinu og það eina sem við getum gengið að sem vísu. Látum ekki ótta okkar skyggja á upplifun okkar af dauðanum og því að deyja. Tölum um dauðann.
Greinarhöfundar er Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar. Birtist á heimildin.is 17. ágúst 2022.