Dánaraðstoð: Óttinn við misnotkun er ástæðulaus
Sumir þreytast ekki á því að fullyrða að lögleiðing dánaraðstoðar muni leiða til misnotkunar, þó að þessi ótti hafi hvergi verið staðfestur hingað til. Einnig er stundum haldið fram að fólk biðji um dánaraðstoð vegna þrýstings frá aðstandendum og að dánaraðstoð sé aðferð samfélagsins til að “losna við” gamalt, fatlað og veikt fólk.
Í þessari grein verður farið yfir þessar fullyrðingar og sýnt fram á að með því að leyfa dánaraðstoð með skýrum, ströngum skilyrðum er hægt að auka öryggi og draga um leið úr líkum á misnotkun.
Fá mál hafa verið höfðuð
Sá litli fjöldi dómsmála sem hefur verið rekinn á þeim tæpu tveimur áratugum sem dánaraðstoð hefur verið leyfileg í Benelúxlöndunum bendir ekki til þess að dánaraðstoð bjóði heim misnotkun. Árið 2016 var það í fyrsta sinn, á þeim 14 árum sem lögin höfðu verið í gildi, að læknir í Hollandi var sakaður um manndráp þegar hann veitti áttræðri manneskju með Alzheimer dánaraðstoð. Þar sem dómarinn taldi að öll skilyrðin fyrir dánaraðstoð hefðu verið uppfyllt endaði málið með sýknun. Árið 2020 hófst fyrsta dómsmálið í Belgíu síðan lögin tóku þar gildi árið 2002 gegn þremur belgískum læknum, heimilislækni, geðlækni og lækninum sem gaf banvænu sprautuna. Þeir veittu konu dánaraðstoð sem leið óbærilegar andlegar kvalir. Málið endaði sömuleiðis með sýknun.
Dánaraðstoð er ekki leið til að losa sig við fólk
Að gefa í skyn að dánaraðstoð sé leið til að „losna“ við gamalt, fatlað eða veikt fólk endurspeglar frekar drungalega sýn á samfélagið. Dánaraðstoð er í fyrsta lagi aðeins veitt að beiðni einstaklingsins og það er aðeins hann sem getur lagt mat á eigin lífsgæði. Læknir veitir aldrei dánaraðstoð að eigin frumkvæði og mun aldrei stinga upp á dánaraðstoð eða veita fólki dánaraðstoð án samþykkis þess. Enginn fær dánaraðstoð gegn eigin vilja, hvort sem um er að ræða gamalt fólk, fatlað eða veikt fólk. Skýrir verkferlar tryggja að ekki sé farið gegn vilja einstaklingsins á neinn hátt.
Hvað varðar utanaðkomandi þrýsting þá er í fyrsta lagi mikil áhersla lögð á það í þjálfun lækna að þeir ræði einslega og ítrekað við einstaklinginn um rök hans fyrir dánaraðstoð til að ganga úr skugga um að óskin sé sjálfviljug og vel ígrunduð og ekki sé um þrýsting af hálfu aðstandenda að ræða. Í öðru lagi sýnir reynslan að aðstandendur upplifa oft erfiðar tilfinningar þegar fjölskyldumeðlimur segist vera að hugsa um að nýta sér dánaraðstoð og reyna jafnvel að fá hann til að breyta afstöðu sinni. Hafa verður í huga að aðstandendur eru oft ekki á sama stað og ástvinur þeirra; hann hefur yfirleitt velt beiðni um dánaraðstoð fyrir sér í svolítinn tíma á meðan aðstandendur þurfa oft smá tíma til að venjast hugmyndinni.
Dánaraðstoð bætir valfrelsi og öryggi fólks
Andstæðingar dánaraðstoðar hunsa stórlega tilvist svokallaðra “leynilegra” aðferða til að hjálpa fólki að deyja í þeim löndum þar sem dánaraðstoð er enn bönnuð, svo sem þegar læknir grípur vísvitandi til ofskömmtunar lyfja í því skyni að lina þjáningar sjúklings þó að hann viti fullvel að lyfin muni draga sjúklinginn til dauða. Um leið er annarri meðferð sem miðar að því að lengja líf sjúklings hætt. Fáir ef enginn sem er í faglegum tengslum við alvarlega veikt og deyjandi fólk andmælir því að þessi vinnubrögð séu stunduð, þó að þau séu sjaldan viðurkennd.
Lögleiðing dánaraðstoðar bætir bæði valfrelsi og öryggi þeirra sem velja að fara þessa leið sem og þeirra sem styðja þá. Á hinn bóginn sæta þeir sem eru neyddir til að binda endi á líf sitt í leyni, þar sem dánaraðstoð er ekki leyfileg, byrði sem enginn ætti að þurfa að bera við lok lífs.
Lífslokameðferð býður heim misnotkun
Hér á landi er stunduð lífslokameðferð sem byggir á breskri hugmyndafræði, Liverpool Care Pathway. Í bækling Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir um hana: „Læknir tekur ákvörðun um lífslokameðferð í samráði við hjúkrunarfræðing og aðstandendur einstaklingsins." Í klínískum leiðbeiningum um líknarmeðferð sem Landspítali gefur út segir að „Ákvarðanir um … lífslokameðferð skulu læknar taka að höfðu samráði við aðra meðferðaraðila.“ Ekki er hægt að sjá að sérstaklega sé leitað samþykkis sjúklingsins fyrir lífslokameðferð. Þess ber að geta að Liverpool Care Pathway var afnumin í Bretlandi árið 2013 þar sem rannsókn þarlendra yfirvalda leiddi í ljós ýmsa misbresti auk þess sem aðstandendur deyjandi sjúklinga gagnrýndu meðferðina.
Nýlegt mál gegn lækni sem starfaði á heilbrigðisstofnun á Íslandi staðfestir að lífslokameðferð býður hættunni heim. Það er óásættanlegt að umræddur læknir hafi getað tekið ákvörðun um að setja sjúklinga, sem jafnvel þurftu ekki á því að halda, í lífslokameðferð án samráðs við sjúklinginn sjálfan eða aðstandendur. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að læknirinn hafi sýnt alvarlegan brest í faglegri þekkingu sem hafi ógnað öryggi sjúklinga. Þá rannsaki lögregla einnig meðferð fimm annarra sjúklinga sem rökstuddur grunur sé um að hafi verið skráðir í lífslokameðferð að tilefnislausu og með því hafi öryggi þeirra verið ógnað.
Er ekki kominn tími á að endurskoða lögin um lífslokameðferð, setja þrengri ramma utan um hana og tryggja valfrelsi og öryggi sjúklinga?
Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar. Birtist á kjarninn.is 4. desember 2021.