Að ráða yfir eigin líkama
Á 149. löggjafarþingi 2018-2019 voru samþykkt ný lög um þungunarrof, lög nr. 43/2019. Þessi lög, sem tryggja ákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama, voru að flestra áliti til mikilla bóta og byggja á réttinum til að ráða yfir eigin líkama, sem má telja til grundvallarmannréttinda.
Í greinargerð og röksemdum fyrir lagasetningunni voru dregin fram góð og málefnaleg rök fyrir frumvarpinu.
Í raun er hægt að heimfæra greinargerðina með lögum nr. 43/2019 upp á réttinn til að deyja með reisn, réttinum sem við í Lífsvirðingu erum að tala fyrir. Það er næstum því hægt að skipta út orðinu þungunarrof fyrir dánaraðstoð, konur fyrir einstaklinga. Greinargerðin er þá í stórum dráttum svohljóðandi:
Mikilvægt væri að Ísland sýndi umheiminum að einstaklingar hér á landi nytu virðingar, ákvörðun þeirra um að fá að deyja með reisn væri virt sem og sjálfsforræði þeirra og þeir studdir með faglegri fræðslu og ráðgjöf sem byggist á gagnreyndri þekkingu. Er þetta í takt við þróun á sviði mannréttinda sem hefur verið í þá átt að auka sjálfsforræði einstaklingsins. Má í því samhengi nefna fjölmarga alþjóðlega samninga og þróun í dómaframkvæmd á sviði þeirra, svo sem mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjónanna, mannréttindasáttmála Evrópu, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum, samning Evrópuráðsins um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar með hliðsjón af starfsemi á sviði líffræði og læknisfræði: samningur um mannréttindi og líflæknisfræði. Þá er í 3. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna kveðið á um að allir eigi rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.
Nefndin var einhuga um nauðsyn þess setja lög sem heimila dánaraðstoð með það fyrir augum að tryggja og undirstrika réttinn til sjálfsforræðis allra yfir líkama sínum og rétt hvers einstaklings til þess að taka ákvörðun um eigin dauða. Þessi sjónarmið leggja grunninn að markmiði frumvarpsins um að tryggja að sjálfsforræði allra sé virt með öruggum aðgangi að heilbrigðisþjónustu fyrir þá einstaklinga sem óska eftir dánaraðstoð.
Að ráða yfir eigin líkama hlýtur að innhalda réttinn til að ráða yfir eigin lífi. Það er varla hægt að skilja lífið frá líkamanum. Lögin nr. 43/2019 voru stórt spor til að tryggja ákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama, eigin lífi. Með því að setja lög um dánaraðstoð mun sami réttur um ákvörðunarrétt yfir eigin líkama, eigin lífi, tryggður öllum, jafnt konum sem körlum.
Greinarhöfundur er Steinar Harðarson, stjórnarmaður í Lífsvirðingu. Birtist á kjarninn.is 12. nóvember 2021.