Lífið í brjósti mér
Á síðasta áratug hafa æ fleiri lönd lögleitt dánaraðstoð. Skoðanakannanir víða um heim hafa einnig sýnt mjög aukið fylgi við dánaraðstoð þar sem slíkt er enn ekki í boði. Þetta á jafnt við um almenning og heilbrigðisstarfsfólk.
Í umræðu um dánaraðstoð hér á landi hafa helstu rökin fyrir slíkri lagasetningu verið þau að losa dauðvona einstaklinga undan óbærilegum þjáningum þegar engin von er lengur um bata. Það eru sannarlega gild og mannúðleg rök.
Þegar fjallað er um mögulega lagasetningu dánaraðstoðar vaknar einnig spurningin um eignarréttinn á eigin lifi. Hver á lífið í brjósti mér? Eru það æðri máttarvöld, samfélagið sem ég tilheyri, ríkið, læknarnir? Stundum virðast rökin gegn dánaraðstoð byggjast á því að einmitt einhver annar en einstaklingurinn sjálfur hafi þetta eignarhald á lífinu. Í stjórnarská lýðveldisins Ísland er í 72. grein kveðið á um eignarréttinn: “Eignarrétturinn er friðhelgur“. Engin sambærileg ákvæði varða réttinn á eigin lífi.
Það ætti að vera skylda hvers samfélags að tryggja það að einstaklingar geti lifað með reisn alla ævi, þ.e. haft áhrif á sín örlög. Hið sama ætti að gilda um ævilok. Þeir einstaklingar sem upplifa aðstæður sína óbærilegar, ekki bara vegna þjáninga, heldur einnig vegna annarra aðstæðna, ættu að hafa þann möguleika að ákveða eigin dauðdaga. Hafa tækifæri til að viðra það við einhvern sem hefur tök á að hlusta og getur látið það hafa áhrif á framvinduna. Í þeim löndum þar sem dánaraðstoð er í boði er þetta umræða sem fer fram við lækni og svo er óháður læknir eða þriðji aðili látinn meta stöðuna til að tryggja eftirlit. Einnig má geta þess að einstaklingur má alltaf hætta við dánaraðstoð fram á síðustu mínútunni. Þegar stundin rennur upp getur sjúklingur valið hverjir eru viðstaddir og kvatt með þeim hætti sem hann óskar sér.
Ástæðurnar fyrir því að vilja velja dánaraðstoð geta verið tilvistarlegar, þegar lífsgæðin eru nánast engin, hreyfigetan horfin og aðstoð þarf við allar daglegar þarfir, tilveran óbærileg.
Oft er mikið gert úr því að þessi möguleiki á að ráða eigin lífslokum sé siðferðilega mjög erfið spurning. Mögulega er það svo. En þegar haft er í huga að iðulega eru teknar ákvarðanir um líf og dauða á heilbrigðisstofnunum okkar verður þessi spurning enn flóknari. Það er oft sameiginleg ákvörðun lækna og aðstandenda að hætta nauðsynlegri meðferð til að halda einstaklingi á lífi. Stundum er notast við of stóra skammta af deyfilyfjum s.s. morfíni. Ef það er siðferðilega vafasamt að einstaklingur sjálfur geti tekið ákvörðun um eigin lífslok, hvað þá um það þegar læknar og aðstandendur taka slíkar ákvarðanir?
Dánaraðstoð felur í sér virðingu fyrir sérhverri manneskju og rétti allra til að geta ráðið lífslokum sínum, endað líf sitt með reisn.
Greinarhöfundar eru Steinar Harðarsson og Hrefna Guðmundsdóttir, stjórnarmenn í Lífsvirðingu. Birtist í Fréttablaðinu í ágúst 2021.