Heilbrigðisstarfsfólk og dánaraðstoð
Þingveturinn 2019-2020 lögðu þingmennirnir Bryndís Haraldsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson Hildur Sverrisdóttir, Páll Magnússon og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fram beiðni til heilbrigðisráðherra um skýrslu um dánaraðstoð.
Viðhorfskönnun heilbrigðisstarfsmanna
Skýrslubeiðnin var í fimm liðum og eru ágætar upplýsingar sem koma fram í skýrslu ráðherra. Í e-lið er varpað fram þeirri spurningu hvort tækt sé að framkvæma viðhorfskönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar. Eftir að hafa vitnað í kannanir frá 1997 og 2010 segir síðan í svari ráðherra:
Ekki er lagst gegn því að gerð verði viðhorfskönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar en hugsanlega þyrfti einnig að kanna viðhorf almennings. Lögð er áhersla á að slík könnun verði unnin á hlutlausan hátt til að niðurstöður varpi sem bestu ljósi á raunverulegt viðhorf þeirra sem könnunina taka.
Hér er rétt að staldra aðeins við. Það er jákvætt að ráðherra leggist ekki gegn könnun enda væri það andstætt því að hér fari fram upplýst umræða. Ástæða þess að óskað er eftir viðhorfskönnun í skýrslubeiðninni er einmitt að ráðherra standi að slíkri viðhorfskönnun í samstarfi við félög lækna og hjúkrunarfræðinga.
Síðan má benda ráðherra á að það hafa verið gerðar tvær kannanir frá 2015 á afstöðu almennings til dánaraðstoðar. Sú fyrri var framkvæmd af Maskínu fyrir Siðmennt en sú síðari var framkvæmd fyrir tæpu ári af Maskínu fyrir Lífsvirðingu, félag um dánaraðstoð. Niðurstaðan er sú að stuðningur við dánaraðstoð eykst og er tæp 78% á meðan andstaðan minnkar og er rétt tæp 7%. Maskína leggur áherslu á vönduð vinnubrögð og starfar eftir öllum ströngustu reglum um gerð vísindalegra kannana. Ákvörðun skýrsluhöfunda að birta ekki niðurstöður kannana Maskínu gerir afar lítið úr fagmennsku starfsmanna Maskínu.
Aðeins um orðanotkun
Rétt er að ræða orðanotkun. Þegar við notum orðið „dánaraðstoð“ á það við um þær aðferðir sem notaðar eru, þótt mismunandi séu, og hafa fengið heiti eins og „hollenska leiðin“, „Oregon leiðin“ og „svissneska leiðin“. Um þær má lesa í heimildaskrá sem fylgir hér að neðan t.d. í grein Bjarna Jónssonar í Kjarnanum 2. nóvember 2019 og í ofangreindu svari heilbrigðisráðherra.
Við í Lífsvirðingu höfum aldrei notað orðið líknardráp sem við teljum gildishlaðið og afar neikvætt orð. Þó að það sé notað í lagatexta þá má benda á að orðið fóstureyðing var í lagatexta um langan tíma er einnig neikvætt og gildishlaðið sem leiddi til að því var kastað fyrir róða og notast við þungunarrof í staðinn.
Að nota orðið líknardráp sem þýðingu á orðinu „euthanasia“ er eins langt frá merkingu orðsins eins og mögulegt er. Rétt þýðing er „góður dauði“. Gæti verið að þeir sem nota líknardráp í málflutningi sínum geri það í þeim tilgangi að setja það í neikvæða merkingu?
Afstaða heilbrigðisstarfsmanna breytist hratt
Það eru a.m.k. tvær ástæður fyrir því að brýnt er að framkvæma viðhorfskönnun. Sú fyrri er að fá fram afstöðu heilbrigðisstarfsmanna hérlendis og sú síðari að afstaða kollega þeirra úti í heimi hefur breyst mjög hratt á síðustu 10-20 árum. Ekki er ástæða til að ætla annað en að það sama sé upp á teningnum hér á landi.
Alþjóðleg samtök lækna hafa alfarið verið á móti dánaraðstoð sem hluta af lífslokameðferð. Það voru til langs tíma einungis læknasamtökin í Hollandi, Belgíu og Lúxemborg sem skáru sig úr. Á síðustu 10 árum hafa mörg landssamtök lækna breytt afstöðu sinni í að vera hlutlaus eða telja rétt að styðja dánaraðstoð. Viðhorf hafa breyst mjög hratt og er því rétt í þessu greinakorni að draga fram þær breytingar.
England
The Royal College of Physicians (RCP), samtök lækna í Englandi, framkvæmdi könnun 2019. Þeir sem vildu viðhalda andstöðu við dánaraðstoð voru 43.4% (44.4% árið 2014), fylgjandi breytingum á lögum voru 31.6% (24.6% - 2014) og 25% töldu að RCP ætti að vera hlutlaust.
Niðurstaða RCP var að breyta afstöðu sinni úr því að vera á móti dánaraðstoð í að vera hlutlaus þar sem ekki væri meirihluti fyrir andstöðu við dánaraðstoð.
Vegna þessarar niðurstöðu ákváðu samtök heimilislækna í Englandi, the Royal College of General Practitioners (RCGP), að kanna viðhorf sinna félagsmanna sama ár. Andvígir dánaraðstoð voru 47% (77% árið 2013), þeir sem styðja hana voru 40% (5% árið 2013) og 11% töldu að félagið ætti að hafa hlutlausa afstöðu.
Stjórn RCGP ákvað hins vegar að viðhalda andstöðu við dánaraðstoð þrátt fyrir að minnihluti væri því fylgjandi. Því hefur verið mótmælt á grundvelli þess að minnihluti sé hlynntur andstöðu og að fjöldi þeirra sem styðja dánaraðstoð hafi aukist mjög hratt.
Önnur samtök heilbrigðisstarfsmanna í Englandi sem hafa hlutlausa afstöðu til dánaraðstoðar eru:
-
- Royal College of Nursing
- Royal College of Nursing Scotland
- Royal Society of Medicine
- Royal College of Psychiatrists
- Royal Pharmaceutical Society
- Royal College of Radiologists
- Royal College of Anaesthetists
Ástralía
Australian Medical Association (AMA), samtök lækna í Ástralíu, viðhalda andstöðu sinni við dánaraðstoð en samtökin framkvæmdu könnun og var lítill meirihluti sem taldi að viðhalda ætti andstöðu.
Samtök heimilislækna, RACGP, hafa hins vegar tekið aðra afstöðu og styðja lagasetningu um dánaraðstoð. Félag hjúkrunarfræðinga, Australian Nursing Federation (ANF), styður lagasetningu um dánaraðstoð en meðal félagsmanna hefur mælst mikill stuðningur eða yfir 80%.
Þess má síðan geta að á undanförnum árum hafa nokkur ríki Ástralíu samþykkt lög um dánaraðstoð.
USA/Bandaríkin
Samkvæmt könnun frá 2019 styðja 60% lækna dánaraðstoð þrátt fyrir að AMA, samtök bandarískra lækna, eru henni andsnúin. Rétt er að geta þess að um 10 ríki/fylki í landinu hafa þegar samþykkt lög um dánaraðstoð.
Norðurlöndin
Í grein sem birtist á Kjarnanum haustið 2019 birti annar höfundur þessarar greinar upplýsingar um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks á Norðurlöndunum. Stuðningur lækna við dánaraðstoð var á þennan veg en einnig er getið breytinga frá eldri könnunum:
-
- Noregur – 30% árið 2019 (15% árið 2009)
- Finnland – 46% árið 2013 (29% - 2002)
- Svíþjóð – 33% árið 2013
- Ísland – 18% árið 2010 (5% - 1997)
Síðan eru hér tölur um afstöðu hjúkrunarfræðinga en einnig er getið um breytingar frá síðustu könnun:
-
- Noregur – 40% árið 2019 - (25% - 2009)
- Finnland – 74% árið 2016
- Svíþjóð – ??
- Danmörk – ??
- Ísland – 20% árið 2010 (9% - 1997)
Það sem ofangreindar niðurstöður sýna er að staðhæfingar um að heilbrigðisstarfsfólk sé andstæðingar dánaraðstoðar eiga sér ekki stoð. Þvert á móti hefur stuðningur við dánaraðstoð aukist verulega á skömmum tíma. Ein af ástæðum þess er að heilbrigðisstarfsfólk er farið að viðurkenna rétt einstaklingsins til að taka ákvörðun um endalok lífs síns við tilteknar aðstæður. Einnig má álykta að með stuðningi við dánaraðstoð felist viðurkenning á að hún sé hluti af lífslokameðferð sjúklings.
Ekki skylda lækna að framkvæma dánaraðstoð
Það að afstaða lækna hafi orðið jákvæðari gagnvart dánaraðstoð kemur fram í könnunum en einnig kemur fram að ekki vilja allir læknar framkvæma dánaraðstoð. Lífsvirðing hefur einmitt bent á að þegar lög um dánaraðstoð verði samþykkt muni það ekki vera skylda lækna að veita hana. Í þeim löndum þar sem dánaraðstoð er leyfð er ekki hægt að skylda lækna. Þetta er mjög mikilvægt atriði.
Hver er vilji almennings?
Viðhorfskannanir hafa verið gerðar víða um heim og það er almennt séð verulegur stuðningur við dánaraðstoð. Yfirleitt er yfir 60% stuðningur við dánaraðstoð og víða jafnvel 70-80%.
En hér eru tölur frá nokkrum löndum sem eru tiltölulega nýjar:
-
- Ísland 78%
- England 84%
- Noregur 77%
- Svíþjóð 33%
- Finnland 46% (tölur frá 2020)
- USA 67%
- Frakkland 96%
Andstaða Læknafélagsins og Landlæknis
Viðhorfskannanir um afstöðu fólks til dánaraðstoðar er hluti lýðræðislegrar og uppbyggilegrar umræðu. Því miður hafa samtök lækna lýst yfir andstöðu við slíka vinnu og sama má segja um Embætti landlæknis.
Í umsögn Læknafélags Íslands 2018 við skýrslubeiðni um dánaraðstoð segir m.a.:
LÍ telur óþarfi að fela heilbrigðisráðherra vinnu af þessu tagi meðan löggjöf er með þeim hætti sem fyrir liggur. Heilbrigðisráðherra hefur að mati LÍ fjölmörgum öðrum og brýnni verkum að sinna á sviði heilbrigðismála.
Í umsögn Embættis landlæknis sama ár segir m.a.:
Það væri misráðið að Íslendingar færðu þessa umræðu inn á Alþingi og enn verra að fela heilbrigðisráðherra og ráðuneyti að takast á við þetta verkefni þegar mörg önnur mikilvægari verkefni bíða úrlausnar í heilbrigðiskerfinu
(Áherslur í báðum tilvitnum er höfunda greinarinnar)
Hvað með þingmenn?
Kannanir sem sýna yfirgnæfandi stuðning við tiltekið mál og þar sem andstaðan er ekki nema tæp 7% hljóta að vekja áleitnar spurnignar um hvað þingmenn séu að aðhafast. Í þessu máli eins og mörgum öðrum virðast þeir ekki treysta sér til að fylgja yfirgnæfandi vilja þjóðarinnar. Það má því velta fyrir sér spurningunni hvort það sé andstætt lýðræðinu! Er ekkert að marka viðhorfskannanir þó þær endurtekið sýni sömu niðurstöðu?
Hvað svo?
Veltum við mörgum steinum og höldum áfram að tala um dánaraðstoð. Það munu vakna margar spurningar en það er afar mikilvægt að fram fari könnun meðal lækna og hjúkrunarfræðinga. Ef það er sterkur vilji fyrir því mætti einnig endurtaka könnun meðal almennings. Það mun fleyta umræðunni fram á við.
Greinarhöfundar eru Bjarni Jónsson og Sylviane Lecoultre, stjórnarmenn í Lífsvirðingu. Birtist á kjarninn.is 26. september 2020.
Heimildir:
Skýrslubeiðni Alþingismanna - https://www.althingi.is/altext/150/s/0747.html
Svar heilbrigðisráðherra - https://www.althingi.is/altext/pdf/150/s/2038.pdf
Könnun RCGP - https://www.bmj.com/content/368/bmj.m708.full
Könnun RCP - https://www.rcplondon.ac.uk/news/no-majority-view-assisted-dying-moves-rcp-position-neutral
Hjúkrunarfræðingar í Ástralíu
https://www.abc.net.au/news/2019-06-26/nurses-gps-back-voluntary-euthanasia-laws-in-wa/11249828
Norðurlöndin
https://tidsskriftet.no/en/2019/01/originalartikkel/doctors-attitudes-assisted-dying
Afstaða lækna í USA - https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC6913834/pdf/yjbm_92_4_575.pdf
Umsögn Læknafélags Íslands - https://www.althingi.is/altext/erindi/148/148-445.pdf
Umsögn Landlæknisembættisins - https://www.althingi.is/altext/erindi/148/148-334.pdf