Hver ræður mínum dauðdaga?
Innan evrópskra samfélaga hefur dánaraðstoð verið leyfileg í Benelúxlöndunum og Sviss frá síðustu aldamótum. Á Íslandi er enn sem komið er bannað að aðstoða deyjandi fólki við að deyja, eingöngu má veita svokallaða lífslokameðferð. Munurinn á lífslokameðferðar og dánaraðstoðar er töluverður.
Lífslokameðferð telst til „venjulegra“ læknisfræðilegra meðferða sem ber ekki skylda að tilkynna. Þegar veitt er dánaraðstoð er læknum hins vegar gert skylt að tilkynna hana til þar til skipaðrar nefndar sem fer yfir hvort rétt og eðlilega hafi verið staðið að framkvæmdinni og hvort lögunum hafi verið fylgt í hvívetna. Misbrestur á því getur varðað lög og réttindamissi. Eftirlit með dánaraðstoð er því töluvert meira en eftirlit með lífslokameðferð.
Flýta ópíóíðar fyrir dauða sjúklings?
Áhersla lífslokameðferðar, sem er skilgreind sem lokastig líknarmeðferðar, beinist eingöngu að því að draga úr einkennum og þjáningu og tryggja að dauðvona sjúklingur geti dáið með reisn. Í þeim tilgangi fær sjúklingurinn m.a. ópíóíða, sem hafa deyfandi og kvalastillandi áhrif. Ásetningurinn er hvorki að lengja líf sjúklings né flýta fyrir dauða hans. Ástralski læknirinn og heimspekingurinn Dr. Thomas Riisfeldt heldur því fram í Journal of Medical Ethics að ekki sé hægt að sanna að ópíóíðar flýti ekki fyrir andláti sjúklings. Ástæðan fyrir því sé að aldrei hafi verið gerðar stýrðar slembirannsóknir á samanburði á þessum lyfjum og lyfleysu enda myndu slíkar rannsóknir brjóta gegn siðareglum. Það væri í meira lagi siðlaust að gefa einstakling sem er sárkvalinn eða með einkenni sem erfitt er að stjórna lyfleysu (sykurtöflu).
Spurning um ásetning
Haft er eftir Björn Einarsson öldrunarlækni og heimspeking í Læknablaðinu 2015: „Verki er alltaf hægt að meðhöndla með því að gefa stærri skammta af morfíni, þó svo maður sé meðvitaður um að morfín er öndunardempandi í stórum skömmtum. Það skiptir ekki lengur máli þó líf sjúklingsins styttist, því það er ekki ásetningurinn.“ Í grein í Fréttablaðinu 1. febrúar 2017 segir Björn jafnframt: „Engin takmörk eru á því hvað má gefa mikið af lyfjum í þeim tilgangi [að lina þjáningar deyjandi sjúklinga, innskot höfundar], jafnvel þó það þurfi að svæfa sjúklinginn líknarsvefni, þó svo það kunni að stytta líf hans.“ Það er sem sagt allt í lagi að sjúklingur deyi svo lengur sem það sé ekki ásetningurinn. Hér er ákvörðun um lífslok eða ekki lífslok tekinn af lækni á meðan vilji sjúklingsins hefur ekkert vægi.
Hver ræður för?
Lífslokameðferðin sem er notuð hér á landi byggir á breskri hugmyndafræði (Liverpool Care Pathway eða LCP). Þess ber að geta að í Bretlandi var þessu meðferðarferli fyrir deyjandi hætt árið 2013 eftir mikla gagnrýni aðstandenda deyjandi sjúklinga og eftir að rannsókn yfirvalda leiddi í ljós ýmsa misbresti. Á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir um þessa meðferð: „Læknir tekur ákvörðun um lífslokameðferð í samráði við hjúkrunarfræðing og aðstandendur einstaklingsins.“ Í bæklingi Landspítalans frá 2017 kemur fram að sé sjúklingur ekki fær um þátttöku í samtali um lífslokameðferð skuli leita til nánasta vandamanns varðandi upplýsingar um óskir hans. Það sé læknir sjúklingsins sem endanlega taki ákvörðun um lífslokameðferð að vandlega athuguðu máli.
Ákvörðun best komin í höndum sjúklingsins
Það er umhugsunarefni að teknar eru ákvarðanir um lífslokameðferð á íslenskum heilbrigðisstofnunum án þátttöku og samþykkis sjúklings. Væri ekki betra ef beiðnin gæti einungis komið frá sjúklingnum sjálfum, eins og er tilfellið með dánaraðstoð? Eitt af skilyrðunum fyrir dánaraðstoð í Benelúxlöndunum og Sviss er að óskin sé sjálfviljug og vel ígrunduð. Læknir eða aðstandendur geta aldrei tekið ákvörðun fyrir hönd sjúklingsins, án leyfis hans. Ákvörðun um meðferð við lífslok hlýtur að vera best komin í höndum sjúklingsins sjálfs. Ætti ekki sjálfráða einstaklingur að hafa eitthvað að segja um eigin dauðdaga?
Greinarhöfundar eru Ingrid Kuhlman og Sylviane Lecoultre, stjórnarmenn í Lífsvirðingu. Birtist í Fréttablaðinu í mars 2020.