Minni sorg aðstandenda eftir dánaraðstoð
Þann 2. febrúar 2017 birtist grein í Fréttablaðinu eftir Björn Einarsson lækni þar sem hann tjáði sig um aðstoð við sjálfsvíg og „líknardeyðingu“, eins og hann hefur kosið að kalla dánaraðstoð.
Þar hélt hann því fram að aðstandendur hefðu orðið út undan í umræðunni um dánaraðstoð og staðhæfði: „Sjálfsvíg eru alltaf harmsaga. Fyrir aðstandendur er það mikið áfall og sorg og þeir geta upplifað það sem höfnun og getur það jafnvel valdið þeim reiði. Einnig eru sjálfsvíg með aðstoð vegna banvænna sjúkdóma harmsaga. Flestir eiga sér fjölskyldu og ástvini. Banvænn sjúkdómur er áfall, en ákvörðunin um sjálfsvíg vegna þess veldur viðbótarþjáningum.“
Vægari sorgareinkenni og minni áfallastreita
Fullyrðingar Björns um reiði, sársauka og höfnunartilfinningu eru ekki í samræmi við rannsóknir, sem hafa sýnt að ákvörðun um dánaraðstoð veldur ekki viðbótarþjáningu. Þvert á móti líta flestir á dánaraðstoð sem kærleiksverk enda er um að ræða dýpstu ósk einstaklingsins að fá að deyja með sæmd. Rannsókn í Hollandi leiddi sem dæmi í ljós að nánustu aðstandendur krabbameinssjúkra sem fengu dánaraðstoð upplifðu vægari sorgareinkenni og minni áfallastreitu en aðstandendur þeirra krabbameinssjúklinga sem dóu náttúrulegum dauða. Það var þeim huggun í harmi að ástvinur þeirra hafði fengið að stjórna ferðinni og deyja á þann hátt sem hann vildi. Þeir töldu mikilvægan þátt í sorgarferlinu að hafa fengið tækifæri til að vera viðstaddir á dánarstund og kveðja ástvininn. Þeir sögðu að ferlið í kringum dánaraðstoðina hefði verið þroskandi og upplifðu þakklæti. Sumir töldu að það að hafa geta rætt á opinskáan hátt um dauðann við ástvininn hefði auðveldað þeim að horfast í augu við og sættast við yfirvofandi andlát hans. Aðrir nefndu þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að gera upp ágreining eða rifja upp dýrmætar minningar. Fólk upplifir vitaskuld sorg, streitu og söknuð við ástvinamissi. En þegar þjáningin ein er eftir er mikilvægt að dauðdaginn sé eins þjáningarlaus og með eins mikilli reisn og hugsast getur. Það að horfa á ástvin kveljast til síðasta andardráttar - vitandi að það er engin batavon – getur haft djúpstæð neikvæð tilfinningaleg áhrif á aðstandendur.
Dánaraðstoð aldrei skyndiákvörðun
Björn skrifaði jafnframt: „Ákvörðun um sjálfsvíg upp á sitt eindæmi er eigingjarn verknaður. Aðstoð við sjálfsvíg eða bein líknardeyðing þarf að vera í sátt við aðstandendur. Áður fyrr var það hörmung fyrir aðstandendur ef einhver dó skyndidauða. Eðlilegast þótti að deyja í faðmi fjölskyldunnar. Banalegan er hluti af sorgarúrvinnslu mannsins. En nú til dags vilja menn deyja skyndilega, vegna fjarlægðar sinnar við dauðann.“
Fullyrðingar Björns um einmana skyndidauða í tengslum við dánaraðstoð eiga ekki við rök að styðjast. Í fyrsta lagi eiga flestir ef ekki allir opinskátt samtal við nánustu aðstandendur um ósk sína. Þeir læknar sem veita dánaraðstoð leggja mikla áhersla á þátttöku aðstandenda og ræða ítrekað við þá í ferlinu. Það heyrir til mikilla undantekninga að fólk velji að binda endi á eigið líf með aðstoð læknis án vitundar ættingja. Þegar um dánaraðstoð er að ræða hefur einstaklingurinn tækifæri til að deyja í faðmi fjölskyldunnar, á þann hátt sem hann vill og í því umhverfi sem hann vill. Í öðru lagi er aldrei um skyndiákvörðun eða stundarbrjálæði að ræða þar sem einstaklingurinn þarf að vera í góðu sambandi við lækninn sinn, vera með ráði og rænu og uppfylla ströng skilyrði. Ósk hans um dánaraðstoð þarf m.a. að vera sjálfviljug og vel ígrunduð.
Þurfum að ræða dauðann
Björn hefur eitthvað til síns máls þegar hann staðhæfir að dauðinn sé fjarlægur okkur. Dauðinn er ákveðið tabú sem við forðumst að ræða og þögnin er ekki til góðs. Kosturinn við ferlið í kringum dánaraðstoð er einmitt að rætt er um dauðann af virðingu en ekki ótta. Dauðinn á ekki að vera feluleikur enda er hann órjúfanlegur hluti af lífinu.
Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar. Birtist á kjarninn.is 15. febrúar 2020.