Dánaraðstoð og líknandi meðferð, algjörar andstæður eða órofa heild?
Föstudaginn 21. september verður haldið málþing sem ber yfirskriftina Dánaraðstoð og líknandi meðferð, algjörar andstæður eða órofa heild? Fyrir málþinginu standa Endurmenntun Háskóla Íslands og Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð.
Tveir innlendir fyrirlesarar halda erindi á ráðstefnunni, annars vegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sem er þingmaður Pírata og formaður laga- og mannréttindaráðs Evrópuráðsþingsins en hún mun fjalla um réttinn til að deyja. Einnig tekur til máls Svanur Sigurbjörnsson sem er læknis- og heimspekimenntaður og hefur verið formaður siðfræðiráðs Læknafélags Íslands frá árinu 2015. Svanur, sem talar sem óháður fagaðili, mun fjalla um sjálfræði og hlutlægt mat og hvort það ætti að leyfa dánaraðstoð öðrum en þeim deyjandi.
Tveir erlendir fyrirlesarar taka til máls á málþinginu, annars vegar Rob Jonquire, sem starfaði sem hollenskur heimilislæknir í Hollandi frá 1972-1985 og hefur síðan 2008 verið framkvæmdastjóri World Federation of Right to Die Societies. Rob var í forystu í baráttunni fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks í Hollandi við setningu laga um dánaraðstoð þarlendis árið 2001. Í erindi sínu mun hann fjalla um dánaraðstoð og líknandi meðferð, sem hann kallar gátuna um eggið og hænuna, og segja frá því hvernig Hollendingar leystu það. Hins vegar tekur til máls Jan Bernheim, belgískur krabbameinslæknir og prófessor emeritus í læknasiðfræði. Hann var einn af stofnendum samtakanna um líknandi meðferð á meginlandi Evrópu árið 1979. Jan vinnur við rannsóknir á myndun krabbameins, læknisfræðilegri siðfræði, lífslokamálum og gæðum lífs í rannsóknarteyminu End-of-Life Care Research Group við háskólann í Brussel og Liège. Hann mun segja frá reynslu Belga sem líta á dánaraðstoð sem hluta af líknandi meðferð. Á málþinginu verður einnig lesin upp reynslusaga aðstandanda af því þegar sjúklingur var svæfður líknarsvefni meðan hann var að deyja úr sjúkdómi sínum. Í lok málþingsins verða pallborðsumræður. Fundarstjóri er Telma Tómasson, fjölmiðlakona.
Í umræðunni hérlendis hefur oft og tíðum mátt heyra ýmsar fullyrðingar um dánaraðstoð, eins og til dæmis þær að að líknandi meðferð sé mun lakari í þeim löndum þar sem dánaraðstoð hefur verið leyfð og því kjósi margir að enda líf sitt. Hefur verið bent á Holland, Belgíu og Lúxemborg í þessu samhengi. Ljóst er að þessi fullyrðing á ekki við rök að styðjast; í skýrslu um gæði líknandi meðferðar frá 2015 (The 2015 Quality of Death Index: Ranking palliative care accross the world) kemur fram að Holland og Belgía standa sig mjög vel í veitingu líknandi meðferðar en Belgía er í fimmta sæti á heimsvísu og Holland í því áttunda. Ef bara Evrópulöndin eru skoðuð er Belgía í þriðja sæti og Holland í því fjórða.
Oft er einnig fullyrt að það séu engin takmörk fyrir því að hægt er að veita góða og fullnægjandi líknandi meðferð. Það þurfi því enginn að óttast að líða þjáningar á dánarbeðinu og dánaraðstoð sé því óþarfur valkostur. Því miður er óskhyggja að halda að líknandi meðferð geti afmáð alla þjáningu. Það hverfur ekki öll þjáning þótt hægt sé að stilla flesta líkamlega verki. Rannsókn í Hollandi sýndi að líkamlegir verkir voru ástæða beiðni um dánaraðstoð í aðeins 36% tilfella. Aðrar og mikilvægari ástæður voru ótti við að missa sjálfstæði sitt (90%), að halda ekki reisn (70%) og að vera háður öðrum (52%). Þess ber að geta að í Oregon og Washington fylkjum hafa yfir 70% af þeim sem fá dánaraðstoð fengið líknandi meðferð áður. Dánaraðstoð þýðir ekki að líknarmeðferð hafi mistekist heldur er dánaraðstoð stundum endapunkturinn á ferli líknandi meðferðar.
Við erum mjög skammt komin í umræðunni um meðferðir við lífslok og dánaraðstoð. Vonandi verður málþingið málefnalegt innlegg inn í þessa mikilvægu umræðu sem við Íslendingar verðum að taka.
Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar. Birtist á kjarninn.is 17. september 2018.