Um dánaraðstoð: Rétt skal vera rétt
Þann 3. apríl sl. birtist grein í Morgunblaðinu sem ber heitið „Gegn líknardrápum á Íslandi“ eftir Guðmund Pálsson, sérfræðing í heimilislækningum. Auk þess að nota frekar niðrandi orðalag, gætir í greininni gætir nokkurs misskilnings, sem er miður, sérstaklega þegar læknir á í hlut.
Markmiðið með þessari grein er að leiðrétta misskilninginn svo að málefnaleg og upplýst umræða geti orðið um dánaraðstoð, sem er eitt af markmiðum Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð.
-
- Guðmundur segir að venjuleg líknandi meðferð dauðvona sjúklinga sé fullnægjandi og nútímaverkjameðferð taki sífellt framförum. Það er vissulega rétt að mikil þróun er í verkjameðferð. Það er hins vegar óskhyggja að halda að líknarmeðferð geti afmáð alla þjáningu. Það hverfur ekki öll þjáning þótt hægt sé að stilla flesta líkamlega verki. Oft er um að ræða tilvistarlega eða andlega þjáningu vegna skertra og óásættanlegra lífsgæða. Á Íslandi líkt og í öðrum löndum er fólk sem líður ómeðhöndlanlegar, óbærilegar kvalir þar sem engin skynsöm lausn er í boði. Í Hollandi eru 85% þeirra sem biðja um dánaraðstoð sjúklingar sem eru langleiddir af ólæknandi sjúkdómum og hafa upplifað það versta sem lífið hefur uppá að bjóða. Dánaraðstoð kemur í veg fyrir vansæmd þeirra og gefur þeim tækifæri á að endurheimta mannlega reisn.
- Guðmundur segir að lögleiðing dánaraðstoðar myndi vekja vantraust almennings gagnvart læknum og skapa óöryggi við umönnun langveiks og eldra fólks. Hið rétta er að með því að leyfa dánaraðstoð með skýrum, ströngum skilyrðum er hægt að auka öryggi og draga um leið úr líkum á misnotkun. Góður lagarammi og skýrir verkferlar tryggja að ekki sé farið gegn vilja sjúklings.
- Guðmundur telur að sjúklingar gætu fundið fyrir óbeinum þrýstingi til að binda enda á líf sitt vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir veikindum. Vissulega getur þessi hætta verið til staðar og því er mikil áhersla lögð á það í þjálfun lækna að þeir ræði einslega og ítrekað við sjúklinginn um rök hans til að tryggja að óskin sé sjálfviljug og vel ígrunduð og ekki sé um beinan eða óbeinan þrýsting að ræða.
- Guðmundur segir hættu á að tímamörk dánaraðstoðar breytist með tímanum. Þegar dánaraðstoð er leyfð verði farið að beita henni á víðtækari forsendum en ætlað var í upphafi. Reynslan frá Hollandi sýnir að svo er ekki. Vissulega hefur hlutfall þeirra sem fengu dánaraðstoð hækkað síðan lögin tóku gildi 1. apríl 2002 en hlutfall lækna sem bundu endi á líf sjúklings án samþykkis hans aftur á móti lækkað.
- Guðmundur heldur því fram að dánaraðstoð gæti lagst þungt á samvisku aðstandenda. Reynslan í Hollandi og Belgíu sýnir að þetta er fjarri lagi; Flestir aðstandendur líta á dánaraðstoð sem kærleiksverk enda er um að ræða dýpstu ósk einstaklings. Rannsókn í Hollandi sýndi að nánustu aðstandendur krabbameinssjúkra sem fengu dánaraðstoð upplifðu minni sorgareinkenni og áfallastreitu. Mikilvægur þáttur í sorgarferlinu var það að geta kvatt ástvininn. Óbærileg þjáning á dánarbeðinum er aftur á sögð hafa varanlega neikvæð áhrif á upplifun og minningar ættingja og vina, eins og fólk hérlendis hefur lýst sem hefur fylgt ástvini í gegnum lífslokameðferð.
- Guðmundur telur að læknastéttin myndi bera mikinn skaða og „dauðalæknar“ að skera sig úr sem „aftökulæknar ríkisins“. Ég velti fyrir mér hvort það sama hafi ekki verið um fóstureyðingar sem voru leyfðar hér á landi árið 1935. Íslenska útgáfan að heitorði lækna var útfærð 1932 og undir þau hafa nær allir læknar sem hafa útskrifast úr læknadeild Háskóla Íslands ritað nöfn sín. Heitorðin hljóma svo: „Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn, að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi, að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits, að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum, að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna. Ekki er hægt að sjá að læknar myndu „óhreinkast ef líflátsverk yrðu vinna sumra þeirra“ líkt og Guðmundur heldur fram.
- Guðmundur vísar í dæmi frá Belgíu þar sem dánaraðstoð var framkvæmd án samþykkis sjúklings. Auðvitað geta alltaf komið upp tilfelli þar sem ekki er farið að lögum í hvívetna. Í Hollandi og Belgíu þarf læknir að skila skýrslu þegar dánaraðstoð hefur farið fram til þar til skipaðrar nefndar sem fer yfir hvort að rétt og eðlilega hafi verið staðið að framkvæmdinni og lögunum fylgt í hvívetna. Misbrestur á því getur varðað lög og réttindamissi. Árið 2017 var í Hollandi aðeins misbrestur í 0,2% tilfella. Hér á landi er notuð lífslokameðferð sem byggir á breskri hugmyndafræði (Liverpool Care Pathway). Í bækling Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir t.d. um hana: „Læknir tekur ákvörðun um lífslokameðferð í samráði við hjúkrunarfræðing og aðstandendur einstaklingsins." Ekki er hægt að sjá að leitað sé samþykkis sjúklingsins. Þess ber auk þess að geta að lífslokameðferð var afnumin í Bretlandi árið 2013. Aðstandendur deyjandi sjúklinga gagnrýndu meðferðina og rannsókn yfirvalda leiddi í ljós ýmsa misbresti.
- Það er rétt að aðeins 2-3% heilbrigðisstarfsfólks hefur sagst geta hugsa sér að verða við ósk um dánaraðstoð í könnunum sem framkvæmdar voru 1997 og 2010. Hins vegar töldu 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga dánaraðstoð réttlætanlega 1997 en árið 2010 hafði hlutfallið hækkað í 18% meðal lækna og 20% meðal hjúkrunarfræðinga. Brýnt er að gera nýja könnun meðal heilbrigðisstarfsmanna eins og þingsályktunartillagan leggur til þar sem tíðarandinn hefur breyst. Samkvæmt könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Siðmennt í nóvember 2015 eru 3 af hverjum 4 Íslendingum frekar eða hlynntir dánaraðstoð á meðan aðeins um 7% eru frekar eða mjög andvígir.
Við Íslendingar þurfum að taka málefnalega og yfirvegaða umræðu um dánaraðstoð. Það er von mín að úttekt á stöðunni í öðrum löndum ásamt könnun meðal heilbrigðisstarfsmanna sé mikilvægt skref í þá átt.
Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar. Birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2018.