Mitt líf, mitt val

Fimmtudaginn 12. janúar verður haldin opinn fundur um dánaraðstoð. Markmið fundarins er að upplýsa um stöðu mála í heiminum og stuðla að aukinni umræðu hér á landi um dánaraðstoð. Framsögumaður á fundinum er Hollendingurinn Rob Jonquière en hann er læknir og framkvæmdastjóri hollensku samtakanna “Right to Die” (NVVE).

Hann var í forystu í baráttunni fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks í Hollandi við setningu laga um dánaraðstoð árið 2001. Rob sinnir einnig starfi framkvæmdastjóra World Federation of Right to Die Societies.

Holland varð fyrsta landið í heiminum til að heimila beina dánaraðstoð með sérstökum skilyrðum. Þegar um beina dánaraðstoð er að ræða biður sjúklingur um dánaraðstoð sjálfviljugur og læknir gefur honum banvæna sprautu. Sjúklingurinn þarf að vera haldinn ólæknandi sjúkdómi, hafa gert lífsskrá, eða gera lífsskrá og vera þá með fullu ráði og rænu og með óbærilega verki sem er ekki hægt að lina. Ósk hans þarf að vera vel ígrunduð og líkamlegt og andlegt ástand hans að vera vottað af tveimur læknum. Læknir þarf að skila skýrslu, þegar dánaraðstoð hefur verið veitt, til þar til skipaðrar nefndar sem fer yfir hvort að rétt og eðlilega hafi verið staðið að framkvæmdinni og lögunum fylgt. Lögin í Hollandi tóku gildi 1. apríl árið 2002. Árið 2015 samþykkti Félag barnalækna stuðning við útvíkkun á gildisramma laganna þannig að þau giltu einnig fyrir börn undir 12 ára aldur. Sú lagabreyting hefur ekki átt sér stað.

Í Belgíu voru sett lög um aðstoð við sjálfsmorð árið 2001. Í febrúar 2014 samþykkti þingið heimild fyrir dánaraðstoð við börn yngri en 12 ára sem eru með ólæknandi sjúkdóm og óska eftir aðstoð við að binda endi á kvalir sínar. Lögin kveða á um samþykki beggja foreldra auk þess sem viðhorf barnsins þarf að liggja fyrir og það geri sér grein fyrir afleiðingum. Lúxemborg lögleiddi beina dánaraðstoð og aðstoð við sjálfsvíg árið 2009.

Flest lönd Evrópu heimila ekki dánaraðstoð en þó er heimilt í nokkrum þeirra að hætta meðferð sjúklings, m.a. í Frakklandi, Danmörk, Ítalíu, Bretlandi, Spáni, Portúgal, Noregi, Ungverjalandi, Slóvakíu og Tékklandi. Í Sviss er bein dánaraðstoð bönnuð en óbein dánaraðstoð heimiluð s.s. að hætta meðferð sem flýtir þá fyrir dauðdaga, auk þess sem heimilt er að aðstoða við sjálfsmorð. Hið síðarnefnda á einnig við um Þýskaland og Svíþjóð. Grikkland, Rúmenía, Bosnía, Króatía, Serbía, Pólland, Írland og Ísland banna alfarið nokkurt form af dánaraðstoð.

Siðmennt framkvæmdi könnun á lífsskoðunum Íslendinga síðasta vetur og spurði m.a. hvort þátttakendur væru hlynntir eða andvígir því að einstaklingur gæti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann væri haldinn ólæknandi sjúkdómi. Niðurstaðan var mjög afgerandi en 74,9% voru mjög eða frekar hlynntir því að einstaklingur gæti fengið aðstoð við að binda endi á eigið líf á meðan 7,1% voru því frekar eða mjög andvígir. 18% svöruðu hvorki né. Hér er um að ræða afar merkilega niðurstöðu en í könnunum erlendis hefur stuðningur við dánaraðstoð hvergi mælst jafn mikill svo vitað sé.

Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga á að fræðast um dánaraðstoð að mæta á opna fundinn 12. janúar kl. 19.30 í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6.  

Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 10. janúar 2017.