Við höfum rétt á að lifa – og deyja

Þann 12. janúar kl. 19.30-21.30 verður haldinn opinn fundur um dánaraðstoð í sal FÍ í Mörkinni 6.  Daginn eftir 13. janúar kl. 17-19 endurtökum við leikinn í Lionssalnum á Akureyri. Að fundunum stendur áhugahópur um dánaraðstoð en markmiðið með þeim er að stuðla að opinni, uppbyggilegri og víðtækri umræðu í samfélaginu.

Framsögumaður er Hollendingurinn Rob Jonquire en hann er læknir og framkvæmdastjóri hollensku samtakanna “Right to Die” (NVVE). Hann var í forystu í baráttunni fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks í Hollandi við setningu laga um dánaraðstoð árið 2001. Rob sinnir einnig starfi framkvæmdastjóra World Federation of Right to Die Societies.

Pabbi minn var einn af þeim fyrstu sem fékk ósk sína um dánaraðstoð uppfyllta á löglegan hátt, aðeins 11 dögum eftir að lög um það tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002. Hann greindist með heilaæxli vorið 1999 sem þrýsti á taugar sem ollu lömun í andlitinu og jafnframt miklum verkjum. Æxlið var þannig staðsett að ekki reyndist unnt að fjarlægja það. Við tóku tvær mjög erfiðar geislameðferðir sem reyndust gagnlausar því æxlið hélt áfram að stækka. Læknarnir sögðu þá að ekkert væri hægt að gera til að bjarga lífi hans og batahorfur væru engar.

Pabba hrakaði síðan stöðugt, hann missti kraftinn í hand- og fótleggjum, jafnvægisskynið varð slæmt og hann var með mikinn höfuðverk. Um páskana 2002 fékk hann háan hita. Talið var að hann væri með lungnabólgu en það reyndist ekki rétt. Hann var fyrir löngu hættur að geta borðað fasta fæðu og fékk hana því einungis í fljótandi formi. Geislameðferðirnar höfðu eyðilagt barkalokuna með þeim afleiðingum að hann gat ekki kyngt og því fór allt sem hann drakk beint ofan í lungun en einkennin lýstu sér eins og lungnabólga. Pabbi hafði misst 20-25 kg og var orðinn aðeins 50 kg undir það síðasta. Hann gat ekki lengur drukkið, aðeins bleytt tunguna í vatni því um leið og eitthvað fór niður hóstaði hann því upp aftur. Hann hafði fengið morfín í 6-7 vikur en það linaði ekki kvalirnar í höfðinu og eyranu sem virtust óbærilegar og ómanneskjulegar. Hann var algjörlega rúmliggjandi og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hans heitasta ósk var að fá að deyja með reisn.  

Pabbi var fylgismaður laganna um dánaraðstoð og þegar þau tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002 kallaði hann á heimilislækninn. Hann sagðist vera búinn að gera upp líf sitt, búinn að kveðja alla, vera sáttur og hreinlega geta ekki meir. Það var enginn ágreiningur um ákvörðun hans. Við virtum hana.

Mikilvægt er að taka fram að skilyrðin sem þarf að uppfylla fyrir dánaraðstoð eru mjög ströng. Það er langt frá því að hægt sé að panta sér dánaraðstoð í Hollandi vegna þess eins að maður sé leiður á lífinu. Sjúklingur þarf að vera haldinn ólæknandi sjúkdómi, hafa gert lífskrá eða gera lífsskrá og vera þá með fullu ráði og rænu,  og óbærilega verki sem ekki er hægt að lina. Ósk hans þarf að vera vel ígrunduð og líkamlegt og andlegt ástand hans  að vera vottað af tveimur læknum, yfirleitt heimilislækni eða sérfræðilækni og öðrum óháðum lækni. Læknir þarf síðan að skila skýrslu þegar dánaraðstoð hefur farið fram til þar til skipaðrar nefndar sem fer yfir hvort að rétt og eðlilega hafi verið staðið að framkvæmdinni og lögunum fylgt í hvítvetna. Misbrestur á því getur varðað lög og réttindamissi.

Næstu daga tók við undirbúningur dauðastundarinnar. Óháður læknir vitjaði pabba og kannaði vilja hans og andlega getu til þess að taka svo afdrifaríka ákvörðun, sem og líkamlegt ástand. Læknirinn vottaði að hann félli undir lögboðin skilyrði sem heimiluðu dánaraðstoð.

Síðan rann dánardagurinn upp. Við vorum öll meðvituð um að þetta væri kveðjustundin og við vorum hjá pabba allan tímann. Við upplifðum dánarstundina mjög fallega og andlátið friðsælt. Við spiluðum ljúfa og rólega tónlist eftir írsku hljómsveitina Enya. Pabbi var búin að biðja okkur um að skála fyrir sér eftir á, sem við og gerðum. Hann var sáttur og við vorum sátt. Hann dó í því umhverfi sem hann vildi og á þann hátt sem hann vildi.

Hver einstaklingur hefur frelsi til að lifa, því hljótum við öll að hafa sama frelsi til að deyja. Hverskonar líf er það að bíða kvalinn eftir dauðanum - vitandi það að það er enginn von um bata?

Ég hvet alla áhugasama um dánaraðstoð til að mæta á fundina í næstu viku.

Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman. Birtist á kjarninn.is 9. janúar 2017.