Þegar þjáningin ein er eftir
Fimmtudaginn 26. janúar kl. 20 verður haldinn stofnfundur Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð. Fundurinn fer fram í húsakynnum Geðhjálpar í Borgartúni 30.
Tilgangur félagsins verður þríþættur:
-
- að stuðla að opinni, uppbyggilegri og víðtækri umræðu um dánaraðstoð. Félagið leggur áherslu á að einstaklingur hafi yfirráð yfir líkama sínum, lífi og dauða;
- að vinna að því að samþykkt verði löggjöf um það að í vissum, vel skilgreindum aðstæðum, og að uppfylltum ströngum skilyrðum verði dánaraðstoð mannúðlegur valkostur fyrir þá sem kjósa af yfirlögðu ráði að deyja með reisn. Félagið telur að dánaraðstoð með skýrum skilyrðum teljist til mikilvægustu mannréttinda; og
- að standa fyrir upplýsingagjöf, fundum og ráðstefnum um dánaraðstoð og vera í góðum tengslum við sambærileg félög erlendis.
Sjálf hef ég reynslu af dánaraðstoð sem aðstandandi en pabbi minn, Anton Kuhlman, var með þeim fyrstu í heiminum til að fá ósk sína um dánaraðstoð uppfyllta á löglegan hátt. Hann dó 11. apríl 2002, aðeins tíu dögum eftir að dánaraðstoð var lögleidd í Hollandi. Pabbi greindist með æxli í heilanum árið 1999 sem var þannig staðsett að ekki var hægt að fjarlægja það. Það þrýsti á taugar og olli lömun í andliti og jafnframt miklum verkjum. Það var enginn læknir í Hollandi sem hafði meðhöndlað slíkt æxli áður og var því fengin ráðgjöf frá læknum í Boston til að ákveða meðferðina. Vonin sem þeir gáfu um bata var ekki mikil en þó til staðar og við tóku tvær mjög erfiðar geislameðferðir. Þær reyndu mikið á pabba en skiluðu því miður ekki tilætluðum árangri.
Eftir geislameðferðina hrakaði pabba stöðugt, hann var farinn að missa kraft í hand- og fótleggjum, jafnvægisskynið var orðið slæmt og hann var með mikinn höfuðverk. Um áramótin 2001-2002 var hann orðinn mjög veikur og algjörlega rúmliggjandi. Hann var sárkvalinn og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hann sagði hvað eftir annað: ,,Ég get ekki meir, þetta er of erfitt, ég er búinn á því, ég vil bara ekki meira.” Pabbi þjáðist óskaplega og var sárkvalinn þrátt fyrir að fá morfín og önnur verkjastillandi lyf. Hann átti þann draum heitastan að deyja með reisn. Hann sagði margsinnis: „Þetta er ekkert líf, bara helvíti á jörðu, ég myndi ekki óska verstu óvinum mínum þessa.“
Pabbi hafði gert lífsviljaskrá þegar hann var enn heill heilsu. Eftir að lögin um dánaraðstoð tóku gildi í Hollandi 1. apríl 2002 ákvað hann að biðja heimilislækni sinn um dánaraðstoð nú þegar hún var orðin lögleg. Í hönd fór strangt ferli til að ganga úr skugga um að beiðni hans væri sjálfviljug og ígrunduð, að þjáning hans væri viðvarandi og óbærileg og að hann væri sannfærður um að engin önnur skynsamleg lausn væri til á ástandi hans. Óháður læknir vitjaði pabba til að kanna líkamlegt og andlegt ástand hans og veitti skriflegt álit.
Eftir að læknarnir höfðu samþykkt að verða við ósk pabba vildi hann ekki bíða eftir neinu, enda sárþjáður. Ákveðið var að dánarstundin yrði daginn eftir. Þetta var auðvitað mjög sérkennileg en falleg stund og við fjölskyldan sátum öll á rúmstokknum hjá honum þegar læknirinn gaf honum banvæna blöndu lyfja og líf hans fjaraði út. Við sögðum við hann: „Góða ferð og hafðu það sem best.“ Hann var sáttur og við vorum sátt. Hann dó í því umhverfi sem hann vildi og á þann hátt sem hann vildi.
Auðvitað er það síðasta sem maður vill að missa ástvin. En þegar þjáningin ein er eftir vill maður að dauðdaginn verði eins þjáningarlaus og með eins mikilli reisn og mögulegt er. Það að ráða eigin dauðastund ætti að mínu mati að vera undir hverjum og einum komið, að uppfylltum ströngum og skýrum skilyrðum.
Ég vil hvetja alla áhugasama um dánaraðstoð að mæta á stofnfundinn 26. janúar kl. 20. Nánari upplýsingar um fundinn er að finna á heimasíðu Lífsvirðingar www.lifsvirding.is
Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman.