Dánaraðstoð – hvað er að gerast á Norðurlöndum?
Í dag, 2. nóvember, er dagur dánaraðstoðar og í tilefni þess ætlum við undirrituð að gera grein fyrir því sem er að gerast á Norðurlöndum.
Fyrsti fundur norrænna félaga um dánaraðstoð
Við áttum þess kost að sitja fyrsta fund félaga um dánaraðstoð fyrri hluta októbermánaðar en hann fór fram í Stokkhólmi. Þátttakendur voru 15 frá öllum Norðurlöndunum en stærsti hópurinn var að sjálfsögðu frá sænska félaginu „Rätten Till en Värdig Död” (RTVD).
Hópurinn samanstóð af fólki með mismunandi bakgrunn. Þarna voru fjórir læknar, geðlæknir, kvensjúkdómalæknir, skurðlæknir, sérfræðingur í líknarmeðferð, hjúkrunarfræðingur en einnig fólk sem starfar utan heilbrigðissviðsins, tveir heimspekingar og fólk frá ýmsum fagstéttum. Flestir hafa reynslu af því að hafa umgengist ættingja eða vini sem þjáðust mikið áður en þeir dóu eða frömdu sjálfsmorð vegna sjúkdómsins. Einstaklingar tengjast einnig málefninu út frá siðferðilegum þáttum og mannréttindum.
Greinilegt er að aðstæður eru afar mismunandi. Fjölmennasta félagið er það norska, "Foreningen Retten til en verdig død", með um 3.000 félaga, síðan það sænska með 2.000 félaga, finnska félagið Exitus er með 340 félaga, Lífsvirðing hérlendis með 195 en í Danmörku er ekki til eiginlegt félag heldur eru starfandi hópar með mismunandi nálgun á málefninu.
Dánaraðstoð – þrjár leiðir
Áður en lengra er haldið er rétt að benda á að það er almennt talað um að notast við þrjár mismunandi leiðir við dánaraðstoð. Þær eru:
-
- ”Hollenska leiðin” (euthanasia) – Læknir gefur banvæna lyfjagjöf í æð – Holland, Belgía, Lúxemborg og Kólumbía. Einnig er í boði “svissneska leiðin” en yfirgnæfandi flestir velja að læknir annist lyfjagjöfina.
- “Svissneska leiðin” (assisted suicide) - Einstaklingurinn innbyrðir sjálfur banvæna blöndu hjá samtökum sem útvega lyfseðilsskyld lyf í gegnum lækni.
- “Oregon-leiðin” - Læknir skrifar upp á banvænu lyfjablöndu sem einstaklingurinn sækir í apótek og innbyrðir sjálfur. Þetta stendur bara til boða þeim sem eru haldnir ólæknandi sjúkdómi og eiga aðeins sex mánuði eftir ólifaða. Níu ríki USA auk Washington DC og eitt fylki í Nýja Mexíkó. Nýlega hafa tvö fylki Ástralíu samþykkt lög um dánaraðstoð og notast er við þessa leið.
Einnig ber að geta þess að í sumum ríkjum, t.d. Svíþjóð og Finnlandi, er heimilt að aðstoð fólk við að taka eigið líf en þó er það ekki heimilt með þátttöku lækna.
Afstaða lækna
Því hefur staðfastlega haldið fram af andstæðingum dánaraðstoðar hér á landi að læknar hér á landi séu alfarið á móti því að heimila dánaraðstoð. Einnig er því haldið fram að andstaða lækna gagnvart dánaraðstoð á Norðurlöndum sé afgerandi og þar með ætti umræðunni að vera lokið.
Á fundi okkar með norrænum kollegum komu hins vegar fram eftirfarandi upplýsingar um afstöðu lækna. Niðurstöðurnar sýna stuðning við dánaraðstoð:
-
- Noregur – 30% (2019 - árið 2009 var stuðningurinn 15%)
- Finnland – 46% (2013 – stuðningur var 29% árið 2002)
- Svíþjóð – 33% (2013)
- Ísland – 18% (2010 - 5% árið 1997)
Stuðningur lækna hefur vaxið stöðugt í öllum löndunum. Eftir bestu vitneskju hafa viðhorf ekki verið könnuð í Danmörku.
Afstaða hjúkrunarfræðinga
Hjúkrunarfræðingar eru sá hluti heilbrigðisstarfsfólks sem er í nánustu samskiptum við sjúklinga og því mikilvægt að hlusta á raddir þeirra. Hér eru niðurstöður um þeirra skoðun:
-
- Noregur – 40% (2019 - 25% árið 2009)
- Finnland – 74% (2016)
- Svíþjóð – ??
- Danmörk – ??
- Ísland – 20% (2010 - 9% árið 1997)
Tölur frá Svíþjóð er ekki hægt að fá staðfestar enn og því ekki birtar hér. Þess skal getið að finnsku hjúkrunarfræðingarnir voru spurðir um stuðning við euthanasia sem er aðferð notuð m.a. í Hollandi, Belgíu, Lúxemburg og Kólumbíu. Það kom einnig fram í könnuninni að 90% þeirra telja að það sé réttur sjúklingsins að hafa val um dánaraðstoð.
Afstaða almennings
Sammerkt stöðu málefnis dánaraðstoðar er að þingmenn eru EKKI að hlusta á vilja almennings. Framkvæmdar hafa verið kannanir í öllum þessum löndum nema Danmörku. Spurningarnar snúast um hvort viðkomandi styðji að dánaraðstoð sé veitt óski einstaklingur eftir því við sérstakar aðstæður (óbærilegar kvalir, ólæknandi sjúkdóm, skammt eftir ólifað). Niðurstöðurnar eru eftirfarandi:
-
- Noregur – 76% (14% á móti en 10% taka ekki afstöðu)
- Finnland – 46% (2002 – stuðningur við dánaraðstoð)
- Svíþjóð – 33%
- Danmörk – ??
- Ísland – 75% (91% ef aðeins er tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu)
Það sem ofangreindar niðurstöður sýna er að staðhæfingar um að læknar á Norðurlöndunum séu andstæðingar dánaraðstoðar eiga sér ekki stoð. Þvert á móti hefur stuðningur aukist verulega á skömmum tíma. Ein af ástæðum þess er að heilbrigðisstarfsfólk er farið að viðurkenna rétt einstaklingsins til að taka ákvörðun um endalok lífs síns við tilteknar aðstæður. Einnig má álykta að með stuðningi við dánaraðstoð felist viðurkenning á að hún sé hluti af lífslokameðferð sjúklings.
Nýjustu tölur frá Íslandi eru nokkuð gamlar en þar kemur fram að stuðningur lækna við dánaraðstoð fer úr 5% í 18% á 13 árum og stuðningur hjúkrunarfræðinga fer úr 9% í 20% á sama tíma.
Hvað er að gerast á Alþingi?
Í júní síðastliðnum var samþykkt skýrslubeiðni á Alþingi til heilbrigðisráðherra. Beiðnin gengur út á að ráðherra taki saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð, sem og tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið. Einnig verði skoðað í öðrum löndum sem ekki leyfa dánaraðstoð hvernig umræðan er og hvort unnið sé að lagasetningu.
Þá er í skýrslubeiðninni óskað eftir að framkvæmd verði skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar. Undanfarin ár hefur verið talað um að uppbyggjandi umræða um dánaraðstoð þurfi að eiga sér stað. Það er því afar mikilvægt að safna ofangreindum upplýsingum.
Samandregið
Á öllum Norðurlöndum nema Danmörku eru starfandi félög um dánaraðstoð. Viðhorf heilbrigðisstarfsmanna til dánaraðstoðar hefur verið að breytast mjög hratt. Yfirgnæfandi stuðningur almennings er við dánaraðstoð.
Við vonum að þessi grein gefi vísbendingu um afstöðu okkar nánustu nágranna og vekji von í brjósti um að ekki líði langur tími þar til dánaraðstoð verði hluti af líknarmeðferð hér á landi.
Greinarhöfundar eru Bjarni Jónsson og Sylviane Lecoultre, stjórnarmenn í Lífsvirðingu. Birtist á kjarninn.is 2. nóvember 2019.