Maður velur ekki dánaraðstoð af léttúð eða fljótfærni
Því er stundum fleygt fram af gagnrýnendum dánaraðstoðar að hún sé einföld leið til að yfirgefa þetta líf. Slík skoðun misskilur algjörlega flókið og djúpstætt eðli þessarar ákvörðunar.
Í raun er ákvörðunin um að sækjast eftir dánaraðstoð afar krefjandi og snertir alls konar siðferðileg, sálfræðileg og persónuleg sjónarmið. Hún er oft lokapunktur langs ferlis þar sem einstaklingur hefur upplifað miklar þjáningar og reynt öll úrræði til að lina þær og bæta lífsgæði sín. Beiðni um dánaraðstoð er allt annað en einföld eða fljótfengin. Hún felur hún í sér mikla íhugun, ekki aðeins fyrir einstaklinginn sjálfan og fólkið sem stendur honum næst heldur líka þá heilbrigðisstarfsmenn sem annast hann.
Siðferðileg og persónuleg sjónarmið
Þegar einstaklingur tekur ákvörðun um að leita aðstoðar við að deyja stendur hann frammi fyrir djúpstæðri siðferðislegri og persónulegri ígrundun. Hann þarf að vega og meta ákvörðun sína í ljósi eigin skoðana og gilda, sem gætu falist í trúarlegri eða andlegri sannfæringu. Þessi innri sannfæring um líf og dauða getur verið í innbyrðis mótsögn við löngunina til að ljúka langvarandi þjáningum. Viðhorf samfélagsins til dauðans og dánaraðstoðar getur einnig haft veruleg áhrif á ákvörðunina.
Tilfinningaleg áhrif
Ákvörðunin um að biðja um dánaraðstoð vekur ekki einungis tilfinningaleg viðbrögð hjá einstaklingnum sjálfum heldur einnig fjölskyldu hans og ástvinum. Sorg yfir missinum sem fylgir því að styðja ákvörðun, sem er í grundvallaratriðum svo endanleg, er algeng. Að styðja ákvörðun um dánaraðstoð getur auk þess lagt siðferðislega byrði á fjölskyldumeðlimi og ástvini, sem gætu glímt við spurningar um réttmæti dauðans og siðferði slíkrar ákvörðunar. Slík tilfinningaleg togstreita getur skapað innri átök og erfiðleika við að tjá stuðning og valdið álagi á fjölskuldutengsl.
Einnig getur einstaklingur sem íhugar dánaraðstoð fundið fyrir einangrun, sérstaklega ef hann upplifir skort á skilningi eða stuðningi frá fjölskyldu, vinum eða samfélaginu í heild.
Lagalegar og hagnýtar áskoranir
Veiting dánaraðstoðar er háð ströngum lagalegum skilyrðum, sem krefst þess að einstaklingar og fjölskyldur þeirra kynni sér vel viðeigandi lög og ferli sem þarf að fara í gegnum til að uppfylla allar kröfurnar.
Ströng skilyrði eru fyrir dánaraðstoð
Óskin um að forðast áframhaldandi þjáningar og fá að deyja á eigin forsendum er mikilvægur þáttur í að sækjast eftir dánaraðstoð. Meðal krafna er að einstaklingur teljist hæfur til að taka upplýsta ákvörðun um dánaraðstoð, sem felur í sér mat á andlegri heilsu hans til að tryggja að þunglyndi eða aðrar geðraskanir hafi ekki óeðlileg áhrif á val hans.
Sjálfsákvörðunarréttur
Ákvörðunin um að sækjast eftir dánaraðstoð snýst í grundvallaratriðum um sjálfræði og stjórn á eigin lífslokum. Hún er fyrir marga síðasta möguleikinn til sjálfræðis eftir að hafa verið með langvinnan eða ólæknandi sjúkdóm sem hefur smám saman tekið af þeim allt frelsi og sjálfstæði. Beiðni um dánaraðstoð er vitnisburður um djúpstæðan vilja einstaklings til að varðveita reisn og stjórna eigin aðstæðum þegar hann stendur frammi fyrir óumflýjanlegum lífslokum.
Í þessu samhengi er mikilvægt að samfélagið og heilbrigðiskerfið veiti stuðning og skilning, bæði á lagalegum grundvelli en einnig með því að sýna mannúð og viðurkenna og virða djúpstætt og flókið eðli þessarar ákvörðunar. Aðgangur að upplýsingum, ráðgjöf og heildrænn stuðningur eru lykilatriði til að tryggja að einstaklingur sem stendur frammi fyrir þessari erfiðu ákvörðun geti gert það á upplýstan og virðingarfullan hátt, í samræmi við eigin gildi og óskir.
Dánaraðstoð krefst mikils hugrekkis
Ákvörðun um dánaraðstoð kallar á mikið hugrekki, bæði þess sem stendur frammi fyrir þessum möguleika sem og fjölskyldu hans og ástvina. Hún er í eðli sínu erfið og langt í frá tekin af léttúð eða fljótfærni. Að fá tækifæri til að ákveða eigin lífslok á virðingarfullan og friðsælan hátt er af mörgum í þessum sporum upplifað sem leið út úr myrkri. Dánaraðstoð bindur enda á óbærilega þjáningu þegar önnur úrræði hafa ekki dugað eða þegar lífsgæði hafa minnkað til muna vegna veikinda. Hún viðurkennir djúpa mannlega þörf fyrir samhug, skilning og virðingu á lokastundum lífsins. Ferlið getur verið tilfinningalega krefjandi fyrir alla aðila, en það er líka tækifæri til að sýna djúpstæðan kærleika, umhyggju og virðingu fyrir vilja og velferð ástvinar.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á heimildin.is 7. mars 2024.