Rök lækna gegn dánaraðstoð og andsvör við þeim
Eins og við mátti búast við eru fjölmargir læknar fylgjandi dánaraðstoð en aðrir eru á móti. Læknar sem eru andvígir dánaraðstoð nefna ýmsar ástæður fyrir afstöðu sinni sem byggja á flókinni blöndu af persónulegum, siðferðislegum og faglegum sjónarmiðum.
Hér eru nokkrar helstu ástæður:
Grunnreglan að valda ekki skaða
Margir læknar líta á afstöðu sína gegn dánaraðstoð sem hluta af faglegri og siðferðislegri skyldu sinni. Þeir vitna í Hippókratesareiðinn og grunnregluna um að valda ekki skaða.
Andsvar: Þegar kemur að umræðu um dánaraðstoð getur þessi grunnregla orðið flókin. Það má líta svo á að með því að neita deyjandi sjúklingi um dánaraðstoð og láta hann þjást af óbærilegum verkjum eða öðrum alvarlegum einkennum sé verið að valda skaða. Í sumum tilvikum getur langvarandi þjáning valdið meiri skaða en aðgerðir sem miða að því að stytta líf sjúklings. Siðfræðilegi vandinn liggur í því að ákvarða hvenær þjáning verður óbærileg og hvenær aðgerðir til að lina hana réttlæta mögulegan skaða sem þær valda.
Hætta á að lögin verði rýmkuð
Áhyggjur sumra lækna og siðfræðinga vegna lögleiðingar dánaraðstoðar byggjast að miklu leyti á ótta við að lögin gætu verið rýmkuð (e. slippery slope). Þ.e.a.s. að dánaraðstoð verði upphaflega leyfð fyrir takmarkaðan hóp sjúklinga með banvæna sjúkdóma sem upplifa óbærilegar þjáningar en með tímanum verði skilgreiningar á því hvað teljist „ómeðhöndlanleg og óbærileg þjáning“ víkkað út til að ná jafnvel yfir alvarlega sjúkdóma sem eru ekki lífshættulegir.
Andsvar: Holland og Belgía voru með fyrstu löndum til að lögleiða dánaraðstoð fyrir rúmum 20 árum. Breytingar á lögunum og aukning í tilvikum þar endurspegla aukna samfélagsumræðu og viðurkenningu á dánaraðstoð sem lögmætum valkosti fyrir þau sem upplifa óbærilega þjáningu. Sterkt eftirlit og ströng skilyrði í löggjöfinni hjálpa til við að tryggja að einungis þau sem uppfylla skilyrðin geti fengið dánaraðstoð. Það er mikilvægt að taka mið af gögnum og reynslu frá þeim löndum sem hafa lögleitt dánaraðstoð.
Áhyggjur af mögulegri misnotkun
Læknar hafa komið á framfæri áhyggjum af mögulegri misnotkun, þ.e. að viðkvæmir hópar, t.a.m. aldraðir, fólk með fötlun og þau sem eru í hættu á félagslegri einangrun, finni fyrir þrýstingi frá samfélaginu eða fjölskyldum sínum til að velja dánaraðstoð. Þrýstingurinn geti verið fólginn í því að vilja ekki vera fjárhagsleg byrði á öðrum eða valda öðrum erfiðleikum.
Andsvar: Ströng skilyrði og vel útfærður lagarammi draga úr hættu á misnotkun og tryggja að dánaraðstoð sé veitt á ábyrgan hátt. Þau eru grundvallaratriði í löggjöf þeirra landa sem hafa lögleitt dánaraðstoð. Megintilgangurinn er að vernda réttindi og velferð þeirra sem leita eftir slíkri aðstoð.
Líknandi meðferð nægir
Margir læknar leggja áherslu á mikilvægi líknandi meðferðar sem fullnægjandi lausnar til bæta lífsgæði og draga úr þjáningu við lok lífs. Þegar líknandi meðferð sé góð þurfi ekki að hafa dánaraðstoð sem úrræði.
Andsvar: Framúrskarandi líknarmeðferð útilokar ekki þörfina fyrir dánaraðstoð. Þótt líknandi meðferð sé áhrifarík í mörgum tilfellum, þá eru tilvik þar sem þjáningar sjúklings eru svo djúpstæðar eða flóknar að þær eru erfiðar viðureignar. Sumir sjúkdómar eða ástand sjúklings geta leitt til þess að fullkomin verkjastilling er ekki möguleg. Í löndum þar sem dánaraðstoð er leyfð, kjósa margir sjúklingar dánaraðstoð sem leið til að enda þjáningar sínar, þrátt fyrir framúrskarandi líknandi meðferð.
Skylda lækna að vernda líf
Þótt læknar viðurkenni almennt mikilvægi sjálfræðis sjúklings, telja sumir að skylda lækna til að vernda líf vegi þyngra en óskir sjúklingsins um að binda enda á eigið líf.
Andsvar: Læknar sem taka afstöðu gegn dánaraðstoð taka meira mið af eigin siðferðislegri og faglegri sannfæringu en af einstaklingsbundnum aðstæðum, óskum og vilja sjúklinga sinna.
Fagleg óvissa: Sumir læknar segjast finna fyrir óvissu eða óþægindum með að taka ákvörðun um að veita dánaraðstoð sem er endanleg og óafturkræf aðgerð, sérstaklega í ljósi flókinna læknisfræðilegra og siðferðislegra spurninga sem henni fylgja. Innri togstreita getur skapast hjá læknum sem eru beðnir um að veita dánaraðstoð, jafnvel í löndum þar sem hún er lögleg.
Andsvar: Í löndum þar sem dánaraðstoð er lögleg eru viðurkenndar reglur sem tryggja að læknar eru ekki þvingaðir til að veita slíka aðstoð gegn vilja sínum. Siðferðisleg, fagleg og persónuleg gildi læknis geta haft djúpstæð áhrif á afstöðu hans til dánaraðstoðar og löggjöfin tekur yfirleitt tillit til þess með því að innleiða ákvæði um samviskufrelsi. Samviskufrelsi gefur lækni rétt á að neita að taka þátt í dánaraðstoð á grundvelli persónulegra, siðferðislegra eða trúarlegra skoðana. Sums staðar krefjast lögin þess að þeir vísi sjúklingi til annars læknis sem getur metið beiðni sjúklings um dánaraðstoð. Þetta tryggir að sjúklingar sem biðja um dánaraðstoð séu ekki skildir eftir án frekari aðstoðar eða úrræða.
Nokkrir læknar hafa undanfarið stigið fram og sagst vera hlynntir löggjöf um dánaraðstoð. Vonandi mun það leiða til þess að umræðan þroskist og dýpki meðal þeirra. Læknar gætu þurft að íhuga hvernig þeirra persónulegu skoðanir samræmast eða rekast á við gildi samfélagsins þar sem yfirgnæfandi meirihluti almennings styður dánaraðstoð.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á heimildin.is 27. ágúst 2024.