Hugleiðingar frá Ástralíu um góð endalok
Á tímabilinu 2017-2022 tóku lög um dánaraðstoð gildi í öllum sex fylkjum Ástralíu. Markmiðið með lögunum var að veita einstaklingum valmöguleika og draga úr óbærilegum þjáningum við lífslok, með öðrum orðum, að gera fólki kleift að upplifa gott andlát.
Þegar við tölum um gott andlát vísum við oftast til hugmyndarinnar um að deyja með reisn og á friðsælan hátt. Fyrir suma eru góð endalok að deyja í svefni, fyrir aðra getur það verið að fá tíma til að kveðja fólkið sem þeir elska. Það er flókið verkefni að ná samstöðu um skilgreiningu á góðu andláti vegna þeirrar augljósu staðreyndar að þeir sem yfirgefa þennan heim geta ekki deilt með okkur persónulegri reynslu sinni af því að deyja. En hvað segja rannsóknir?
Ellefu viðmið fyrir gott andlát
Árið 2021 birtist í vísindatímaritinu The Lancet grein um ellefu lykilþætti sem skilgreina gott andlát, en þeir eru:
- Að vera laus við líkamlega verki og önnur líkamleg einkenni
- Að njóta uppbyggilegra samskipta og tengsla við heilbrigðisstarfsfólk
- Að geta tekið þátt í menningarlegum, trúarlegum eða öðrum andlegum athöfnum
- Að vera laus við tilfinningalegt álag og sálrænan kvíða
- Að viðhalda sjálfræði í ákvarðanatöku um meðferð og umönnun
- Að deyja á þeim stað sem maður kýs
- Að lengja ekki lífið að óþörfu
- Meðvitund um djúpa merkingu þess að andlátið er yfirvofandi
- Að njóta tilfinningalegs stuðnings frá fjölskyldu og vinum
- Að forðast að vera byrði á öðrum
- Að hafa rétt til sjálfsákvörðunar um eigin lífslok
Höfundar greinarinnar benda á að þegar kemur að lífslokum séu stöðugt oftar alls konar læknisfræðileg inngrip sem geti komið í veg fyrir að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Þeir leggja áherslu á nauðsyn þess að veita dauðvona einstaklingnum vald til að stjórna eigin örlögum, sérstaklega þegar þeir standa frammi fyrir óumflýjanlegum lífslokum.
Ósk um að deyja heima
Hugmyndin um gott andlát var einnig skoðuð í skýrslu Grattan Institute frá árinu 2014, Dying Well. Í skýrslunni kemur fram að 70 prósent Ástrala kjósa að deyja heima í návist fjölskyldu og vina, en aðeins 14 prósent ná því markmiði. Skýrslan varpar ljósi á þá staðreynd að dauðinn í Ástralíu er í auknum mæli stofnanavæddur; um það bil helmingur fólks deyr á spítala og þriðjungur á hjúkrunarheimilum, sem er tvöfalt hærra hlutfall en í löndum á borð við Nýja Sjáland, Bandaríkin, Írland og Frakkland. Dánaraðstoð er aftur á móti veitt á heimilum fólks í 50% tilfella og uppfyllir þar með mörg ofangreindra skilyrða fyrir góðum endalokum.
Í skýrslu Grattan Institute er greint frá tólf lykilþáttum þegar kemur að góðu andláti:
- Að vita hvenær andlát er í nánd og skilja hverju megi búast við
- Að geta haft stjórn á því sem gerist
- Að halda mannlegri reisn og hafa persónulegt næði
- Að geta stjórnað verkja- og einkennameðferð
- Að hafa val og stjórn á því hvar andlátið eigi sér stað, hvort sem er heima eða annars staðar
- Að hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og sérfræðiþekkingu
- Að hafa aðgang að andlegum og tilfinningalegum stuðningi
- Að hafa aðgang að líknarþjónustu, hvort sem er heima eða á sjúkrahúsi
- Að hafa stjórn á því hver verði viðstödd lífslokin
- Að geta gefið út leiðbeiningar fyrir fram sem tryggja að óskir séu virtar
- Að hafa tíma til að kveðja og stjórna öðrum mikilvægum tímasetningum
- Að geta farið þegar tíminn er kominn og að lífið sé ekki lengt að ástæðulausu
Virðum óskir deyjandi fólks
Það eru sjálfsögð mannréttindi að virða óskir deyjandi fólks og viðurkenna rétt þess til sjálfsákvörðunar þ.e. réttinn til að taka ákvarðanir um eigið líf og andlát. Samræður um réttindi og óskir deyjandi fólks kalla á siðferðislega íhugun og opna samfélagslega umræðu. Þróun lagasetningar um dánaraðstoð sem styður réttindi deyjandi fólks til sjálfsákvörðunar og ber virðingu fyrir óskum þeirra er lykilatriði.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á heimildin.is 24. september 2024.