Lífslokameðferðin allt annað en friðsæl og falleg
Það er erfitt að finna réttu orðin til að lýsa þeim tilfinningum sem fylgdu því að sjá tengdapabba minn, sem var með langt gengið krabbamein, fara í gegnum lífslokameðferð.
Eftir greininguna og stutta dvöl á spítala var hann fluttur á líknardeild. Fljótlega eftir komu hans þangað var ákveðið að hefja lífslokameðferð. Sú meðferð hefur skilið eftir sárar minningar.
Þegar lífslokameðferðin hófst upplifðum við aðstandendur að líknarslævingin sem honum var veitt – sem þó átti að lina þjáningar hans – væri ekki að duga. Sjá mátti á andliti hans að hann þjáðist og það olli okkur aðstandendum mikilli vanlíðan. Síðustu dagar hans einkenndust af óróleika, angist og óskiljanlegri baráttu. Hann reyndi ítrekað að toga sig upp úr rúminu, leit á okkur angistarfullum augum og vildi bara fara heim. Við gátum hvorki átt mikil samskipti við hann né veitt honum aðstoð.
Það var mér afar þungbært að horfa upp á þjáningar hans og angist, án þess að geta gert neitt til að lina þær. Ég upplifði vanmátt, sársauka og reiði.
Tengdapabbi dó ekki með reisn. Það var ekkert friðsælt við andlát hans. Það var kvalafullt, átakanlegt og allt annað en það sem hefði geta orðið hefði hann fengið dánaraðstoð líkt og deyjandi fólki stendur til boða í fjölmörgum löndum. Ég veit í hjarta mínu að hann hefði aldrei kosið að kveðja lífið á þennan hátt. Síðustu þrír dagar hans í lífslokameðferð voru honum ekki bara ólýsanlega erfiðir fyrir hann heldur líka fyrir okkur sem elskuðum hann.
Að horfa á ástvin sinn deyja á þennan hátt er sárt og mjög hart. Ég mun aldrei gleyma því sem ég sá og upplifði. Hann átti miklu, miklu betra skilið. Og það er þessi hugsun sem sárast er að lifa með.
Starfsfólk líknardeildar Landakotsspítala á miklar þakkir skilið fyrir góða þjónustu og hlýlegt viðmót. Þessi grein er á engan hátt gagnrýni á það einstaka fólk sem þar starfar.