Pabbi dó hörmulegum „lífslokameðferðardauða“

Ég veit ekki hvaða hugmyndir ég hafði um það að deyja áður en pabbi dó eftir lífslokameðferð, en þegar hann lést vöknuðu spurningar og efasemdir um það verklag sem viðhaft er á Íslandi.

Andlát er alltaf erfitt og eðlilegt andlát án nokkurs inngrip er eflaust ekki alltaf fallegt eða þægilegt. En innra með mér er tilfinning um hann hafi ekki fengið gott andlát. Ég kvaddi tengdapabba fyrir 23 árum þegar hann fékk dánaraðstoð og get því lagt mat á þessar tvær leiðir.

Viku áður en pabbi lést var hann fluttur á líknardeild, þar sem heilsu hans hrakaði hratt. Hann var með langt gengið krabbamein sem greindist nokkrum vikum áður og honum leið illa og þurfti mikla umönnun.

Fljótlega eftir komuna á líknardeildina ræddi læknirinn við okkur um að endalokin væru fram undan og æskilegt væri að hefja lífslokameðferð þ.e. engin næring, vökvi, lyf eða annað gefið, bara deyfandi og róandi lyf. Við fjölskyldan ræddum þetta með lækninum og voru sammála enda dánaraðstoð ekki í boði.

Síðustu dagana sátum við yfir pabba dag og nótt. Hann fékk mikið morfín og ekki var hægt að greina að hann skildi nokkuð af því sem fram fór í kringum hann nema þegar við aðstandendur sögðumst ætla að fara heim. Þá opnaði hann augun og lyfti hann upp höndunum, eins og hann vildi koma með. Þessar hreyfingar sögðu okkur að hann heyrði allt þó svo að augun, röddin og líkaminn gætu ekki svarað. Við fundum að pabbi var hræddur og vildi komast heim. Við gættum okkur á því að nefna það aldrei ef einhver fór og reyndum að láta hann finna að það var alltaf einhver hjá honum sem þekkti hann.

Síðasti sólarhringurinn var erfiðastur. Pabbi var mjög lyfjaður, það hrygldi í honum og hann átti stöðugt erfiðara með að draga andann. En hrygla er hljóð sem kemur frá öndunarveginum þegar einstaklingur er við lok lífsins. Þetta gerist þegar hann er ekki lengur meðvitaður eða hefur ekki styrk til að kyngja eða hreinsa slím og vökva úr hálsi og öndunarvegi. Vökvinn safnast þá fyrir og loftið sem fer í gegnum öndunarveginn veldur hryglu.

Síðustu 30 mínúturnar voru hörmulegar þar sem við vissum út frá hrygluhljóðunum og áreynslunni að þetta gæti ekki orðið mikið verra.

Pabbi hafði rætt oft og mörgum sinnum að hann vildi að hægt væri að fá dánaraðstoð en það má ekki á Íslandi og hluti lækna neitar að opna á það. Fyrrverandi landlæknir og núverandi heilbrigðisráðherra segist engan áhuga hafa á því að vinna að málinu þar sem fyrst þurfi að bæta meðferðir við lok lífs og formaður læknafélagsins er persónulega á móti dánaraðstoð og talar eins og hún sé með alla lækna á bak við sig. Þrátt fyrir að mikill meirihluti Íslendinga sé hlynntur dánaraðstoð er umræðan föst vegna persónulegra skoðana fárra aðila í áhrifastöðum.

Núna, þegar þetta er skrifað, eru rúmir tveir mánuðir liðnir frá því pabbi dó. Ég finn að ég er enn reiður og finnst að gróflega hafi verið brotið á pabba mínum og öllum þeim sem þurfa að ganga í gengum dauðastríðið á þennan hátt.

Ég hef samanburð á lífslokameðferð og dánaraðstoð. Tengdapabbi minn var einn af þeim fyrstu í Hollandi til að þiggja dánaraðstoð eftir að hún var lögleidd, rétt eftir aldamótin.  Ef ég ber saman þessa tvær dauðastundir þá er þetta algjörlega hvítt og svart. Tengdapabbi hafði samband við sinn heimilislækni sem kom og ræddi við hann um ósk hans um dánaraðstoð. Hann var kvalinn og hafði verið það lengi og vitað var að engin lækning var til og endalokin í augnsýn. Læknirinn spurði hvenær hann vildi deyja og hann sagði „helst strax“. Heimilislæknirinn hans setti ferli dánaraðstoðar strax af stað. Annar óháður læknir kom og gekk úr skugga um að allt væri eins og lögin kváðu um þ.e. sjálfviljug ósk, engin lækning möguleg, óbærilegar kvalir og stutt eftir. Daginn eftir mætti heimilislæknirinn og við fjölskyldan vorum hjá tengdapabba. Við kvöddum hann hvert og eitt og svo vorum við saman hjá honum þegar hann fékk dánaraðstoðina. Læknirinn gaf honum fyrst sprautu sem svæfði hann djúpum svefni á nokkrum sekúndum og síðan aðra sem hægði á öllu uns hann dó. Þetta var kvalarlaust með öllu, friðsæl stund í svefnherberginu hans með hans nánustu fjölskyldu. Heimilislæknir hans, sem hafði þekkt hann í 30 ár, gekk úr skugga um að allt væri yfirstaðið og ósk hans framkvæmd. Við sátum hjá honum í líkleg tvo tíma og kvöddum hann. Allt var friðsælt og þó að sorgin hafi verið mikil þá var stundin falleg.

Þegar ég ber þetta saman við andlát pabba þá var ekkert friðsælt eða fallegt við það. Þetta var dauðastríð, hann kvaldist, var hræddur, í lyfjamóki, gat ekki talað en heyrði allt.  Ég sé hann enn fyrir mér að mestu rænulausan í lyfjamóki og heyri enn andardráttinn og hrygluhljóðið síðasta klukkutímann. Það var ekkert fallegt við dauðastundina og fyrir pabba var þetta örugglega það síðasta sem hann vildi.

Ég vona innilega að ég og allt mitt fólk, og helst enginn, þurfi ekki að ganga í gegnum lífslokameðferð. Þrátt fyrir að henni sé lýst sem fallegri stund í bæklingum Landspítalans og kannski er hún það í einhverjum tilfellum.

En þetta þarf ekki að vera svona.

Nú þegar hafa 8 lönd í Evrópu, 11 fylki í Bandaríkjunum og 7 lönd í öðrum heimsálfum lögleitt dánaraðstoð og fjölmörg önnur eru að vinna í því að gefa fólk kost á því að deyja með reisn og á sínum eigin forsendum.

Vonandi þurfum við ekki að bíða lengi eftir þeim degi þegar dánaraðstoð verður lögleg á Íslandi.

Allt starfsfólk á líknardeild Landakotsspítala á þakkir fyrir góða þjónustu og viðmót. Þessi grein er á engan hátt ádeila á það góða fólk sem þar vinnur.