Það síðasta sem hvarf var húmorinn
Bróðir minn greindist með krabbamein sem dreifði sér mjög hratt. Það tók ekki nema ár að fella hann. Hann talaði oft um þá ósk að honum yrði veitt aðstoð til að binda endi á þjáningarnar þegar þar að kæmi.
Ég fór með honum í viðtal við yndislega konu á Landspítalanum þar sem hann nefndi dánaraðstoðina. Hún reyndi að sannfæra hann um að hann þyrfti aldrei að kveljast, og líklega dró það eitthvað úr kvíðanum, en fljótlega fór hann að tala aftur um dánaraðstoðina við mig.
Hann gekk frá erfðaskrá sinni og ákvað hvernig hann vildi ráðstafa ýmsum eigum. Eftir að hann fór á líknardeildina varð óskin um dánaraðstoð enn sterkari. Eftir því sem nær dró endalokunum varð hann kvíðinn og hræddur, þó hann léti það aðeins uppi við mig. Ég var hans nánasti, og þó hann ætti börn fannst honum betra að tala við mig um það sem honum lá á hjarta.
Það síðasta sem hvarf var húmorinn. Við eigum mynd þar sem hann situr í hjólastól og ég keyri; hann leikur góða dátann Sveik og ég frú Muller. Þannig vil ég helst minnast hans - með bros á vör þrátt fyrir allt.
Svo sannarlega vildi ég hafa þann möguleika að fá aðstoð þegar ekkert er eftir.
Birt með leyfi höfundar