Af hverju má ekki lina þjáninguna nú þegar?

Eftir að hafa horft á ástvin deyja hægt úr heilabilun, og starfa á hjúkrunarheimili þar sem margir íbúar höfðu heilabilun eða hrörnunarsjúkdóm, hef ég sterkar skoðanir á mikilvægi dánaraðstoðar. Að deyja hægt úr kvalarfullum sjúkdómi er fyrir mér pynting, og þykir mér merkilegt hvað fólki finnst algjörlega sjálfsagt að svæfa dýr „svo þau þjáist ekki“, en á sama tíma þyki eðlilegt að manneskjur þjáist langtímum saman.

Svo ég taki heilabilun sem dæmi finnst mér hræðileg tilhugsun að hverfa hægt og rólega frá umheiminum, tapa öllu sem gerir mig að mér, og enda sem tóm skel sem upplifir hræðslu og sársauka. Hvað þá að horfa upp á ástvin ganga í gegnum þetta ferli. Frekar vildi ég geta tekið þá ákvörðun að kveðja á mínum eigin forsendum þegar þar að kemur.

Einnig hef ég setið banaleguna með ástvin sem dó úr lungnavandamáli, og það að sitja og hlusta á einhvern kafna hægt og rólega er upplifun sem ég óska engum. Þá hugsaði ég oft með mér, „við vitum öll að það er engin von um að viðkomandi lifi þetta af, þetta er bara tímaspursmál, af hverju má ekki lina þjáninguna nú þegar?“