Ég veit fyrir víst að svona vildi hún aldrei enda líf sitt

Konan mín sem aðeins er 52 ára var greind með lungnakrabbamein í marslok 2017 eftir að hafa gengið á milli lækna í 4-5 mánuði. Mjög hraust og passaði sig að lifa eðlilegu heilbrigðu lífi. Síðar dreifði krabbinn sér í nýrnahettur og höfuð. Í janúar 2018 var hún send til London í sérstaka geislameðferð.

Við fengum þann úrskurð í lok júní að krabbinn í höfðinu væri ólæknanlegur. Ákveðið var að hætta lyfjameðferð. Hún spurði lækninn hvort hún gæti ekki fengið sprautu og klárað þetta eða fengið að fara til Sviss þar sem löglegt er að hjálpa fólki við þessar aðstæður. Það liðu ekki tvær vikur og þá var hún komin inn á Líknardeild og henni fór að hraka. Það var komið að henni á Líknardeildinni þar sem hún var búin að lyfta bolnum og var með skæri að reyna að enda lífið. Hún hitti aðeins bringubeinið og varð ekki meint af. Aðra stundina sá hún eftir þessu en hina hvurslags klaufi hún var að hitta ekki. Nú er hún búin að vera á Líknardeildinni í bráðum 3 mánuði og það stefnir í endalokin.

Endalaust búið að vera bæta við lyfjum. Nú er þetta orðið þannig að hún er með 2 dælur, önnur er með verkjalyfjum og hin með slævgandi lyfjum. Eftir atvikum fær hún aukaskammt. Ég veit fyrir víst að svona vildi hún aldrei enda líf sitt. Ég tala nú ekki um mig, börnin okkar og ættingja og vini að sjá henni hraka svona.