Ég er aðstandandi en mamma mín er með Lewybody sjúkdóminn. Hún greindist með Parkinson 2017 og 2018 með Alzheimer. Í dag er hún ósjálfbjarga á allan hátt og fer hægt niður á við. En sjúkdómurinn helltist yfir þessa elsku á sínum tíma. Að sjá nákominn ættingja hverfa frá manni á þennan hátt er afar erfitt að horfa upp á.
Eftir að hafa horft á ástvin deyja hægt úr heilabilun, og starfa á hjúkrunarheimili þar sem margir íbúar höfðu heilabilun eða hrörnunarsjúkdóm, hef ég sterkar skoðanir á mikilvægi dánaraðstoðar. Að deyja hægt úr kvalarfullum sjúkdómi er fyrir mér pynting, og þykir mér merkilegt hvað fólki finnst algjörlega sjálfsagt að svæfa dýr „svo þau þjáist ekki“, en á sama tíma þyki eðlilegt að manneskjur þjáist langtímum saman.